135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum.

[14:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það liggur við að ég geti sagt það sama og hv. þingmaður að ég er litlu nær um það hver hans spurning eiginlega var. Við vorum gagnrýnd harkalega á síðasta þingi af hálfu hv. þingmanns og samflokksmanna hans fyrir að auka framkvæmdir í fjárlögum ársins 2008. Sjá ekki allir í hendi sér núna hvað sú gagnrýni var vitlaus og út í hött miðað við það ástand sem er að skapast hérna í þjóðfélaginu? Það er þörf fyrir framkvæmdir og þörf fyrir störf hjá fólki sem er verið að segja upp í byggingarstarfsemi og fleiru þess háttar. Það kemur á daginn að það var skynsamlegt að fara þá leið og það mun koma á daginn þegar fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram 1. október hver stefnan verður varðandi þetta á næsta ári.

En auðvitað varðandi vextina hlýtur það að vera vilji og stefna okkar allra að koma þeim niður en það verður ekki hægt að reikna með því að vaxtastigið í landinu lækki fyrr en verðbólgan lætur undan síga. Sem betur fer bendir flest til að það geti orðið nú með haustinu og þá er vonandi ekki langt að bíða þess að vaxtalækkanir fylgi í kjölfarið.