135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:53]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er erfitt að fara í svona mál þegar mál eins og verkfall ljósmæðra brennur á okkur. En þetta er mjög mikilvægt líka.

Í fyrsta lagi varðandi vinnubrögðin í nefndinni er alveg ljóst að þegar ákveðið var að fresta málinu í vor lá fyrir að Bændasamtökin óskuðu eftir því að fá lengri frest til að skila áliti sínu. Og ég veit til þess að þau hafa unnið mjög stíft að því í sumar. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, hafði samband við mig í gær og sagði mér að nú væri alveg að bresta á þetta álit sem þau ætla að gefa og hann óskaði eftir því að Bændasamtökin fengju að koma fyrir nefndina í næstu viku. Við munum reyna að koma því á á fimmtudaginn.

Hins vegar ætluðum við að hafa fund í nefndinni á þriðjudaginn til að fara yfir stöðuna og skoða það hvernig málin hefðu þróast í sumar vegna þess að auðvitað hefur verið vinna í gangi við það að fara betur yfir þetta í ráðuneytinu og í utanríkisráðuneytinu. Ég tel það mjög mikilvægt.

Varðandi það hvort sjávarútvegurinn muni á einhvern hátt líða fyrir þessa frestun er auðvitað ákveðin hætta á því að kærur komi á okkur út af þessu og samkeppnisþjóðir okkar í sjávarútvegi muni reyna að stöðva innflutning okkar inn á Evrópska efnahagssvæðið. Það má reikna með (Forseti hringir.) að menn hafi þolinmæði að minnsta kosti fram eftir hausti þannig að ég á ekki von á því að það muni hafa alvarlegar afleiðingar að löggjöfin hafi frestast þetta mikið.