135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti.

Ég var soltinn og klæðlaus og orti í Alþýðublaðið,

og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig.

Ég bið nú hv. þm. Kristin H. Gunnarsson afsökunar á því að ég skuli leyfa mér að gegna skyldu minni og koma hér og mæla fyrir þessu máli í fjarveru hæstv. viðskiptaráðherra. Hann er í embættiserindagjörðum erlendis m.a. sem norrænn samstarfsráðherra. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það að hann sé fjarverandi hér. Hér er maður sem vel getur staðið fyrir þessu máli.

Það er ágætt hjá hv. þingmanni að koma hingað og kasta köpuryrðum og kalla ræðu mína snautlega og segja að hún sé ekki boðleg. En ég verð að segja það að ræða hv. þingmanns var ekki boðleg. Hún var ekki boðleg gagnvart hans eigin umbjóðendum sem hann kaus að draga með óviðurkvæmilegum hætti inn í þetta.

Ég man alveg slysið á Flateyri og umræðurnar á eftir því. Þær snerust m.a. um það tjón sem þeir sem því sættu þurftu að bera. Menn eru hér m.a. til að læra af reynslunni. Menn hafa líka lært af reynslunni frá árinu 2000 þar sem það kom fram að þótt upphæðin væri minni, ríflega 50 þús. uppreiknuð, var hún of há. Hvað hefur gerst síðan?

Það er eitt sem hefur breyst sem hv. þingmaður hefur margoft drepið á hér í ræðum sínum og skömmum gagnvart ríkisstjórninni. Byggingarkostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi og hvers vegna skyldi þá sjálfsáhætta vegna innbús tengjast því? Það er bara fráleitt. Það er þess vegna sem m.a. er verið að rjúfa þau tengsl og það tel ég algjörlega sjálfsagt.

Ríkisstjórnin reyndi með þessum hætti að greiða úr vanda þúsunda fjölskyldna. Ég gæti haft ýmis orð um það hvers vegna hv. þingmaður kýs að leggjast gegn því en ég veit að hann er ekki illa innrættur og það er ekki þess vegna sem hann talar svona. Eins og ég mun koma að í seinni ræðu minni hér í dag og svara þá ýmsum öðrum efnisatriðum, frábið ég mér málflutning af þessu tagi.(Forseti hringir.)