135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:58]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir málefnalega ræðu og einnig þær undirtektir sem koma fram hjá honum við hina efnislegu gerð frumvarpsins.

Hv. þingmaður spurði svo sem upphátt hér í stólnum hvort hugsanlega hefði mátt ná fram markmiðum frumvarpsins með öðrum hætti, ég skildi hann svo, eins og reyndar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafði ýjað að í máli sínu áðan — hann velti fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að bæta tjónið þó að það hefði dregist fram í september.

Nú er það svo, eins og hv. þingmaður benti sjálfur á, að mjög vel tókst til í kjölfar skjálftans að styðja íbúana að öllu leyti og öllum ber saman um að menn hafi lært mjög vel af reynslunni frá árinu 2000. Það er nefnilega þannig að bæði löggæslan og almannavarnir lærðu mjög mikilvæga lexíu af því sem gerðist árið 2000. Gerð var skýrsla um það, dregnar voru saman niðurstöður, og ég verð að segja að eitt af því sem kom fram árið 2000 var nauðsyn á því að bæta tjón hratt og meta tjón hratt. Það var t.d. þess vegna sem nú var farin sú leið að tryggingafélögunum var í umboði ríkisins falið að meta tjónið og greiða það út til þess að ná fram sem mestum hraða.

Ef menn hefðu farið þá leið að bíða með þetta fram í september hefðu menn orðið miklu seinni til. Ég vek athygli á því, eins og ég upplýsti í framsöguræðu minni, að búið er að greiða út 1.650 milljónir nú þegar. Það skiptir máli fyrir þá íbúa sem sættu þessu tjóni. Þetta er ástæðan fyrir því. Ég skal svo ræða hér á eftir reglugerðina sem ég er ósammála hv. þingmanni um, en ég get vel fallist á að það er kannski umdeilanlegt að gera kerfisbreytingu (Forseti hringir.) með þessum hætti í bráðabirgðalögum.