135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:16]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var fín ræða hjá hv. þm. Jóni Magnússyni og efldist eftir því sem á leið og best var hún í lokin. Hv. þingmaður er hæstaréttarlögmaður og hann kemur inn í sali Alþingis eftir að hafa átt mjög góðan og víðfeðman feril á því sviði. Hann hefur því að baki mikla reynslu og þekkingu á lögum og stjórnspeki. Ég hugsa að enginn þingmaður hafi viðlíka starfsreynslu og hann að baki. Það ber því að taka mark á því sem hv. þingmaður sagði.

Mér þótti ákaflega merkilegt þegar ég greindi kjarnann í ræðu hans með eftirfarandi hætti: Í fyrsta lagi að hann er sammála markmiði breytinganna. Í öðru lagi að hann telur að varðandi beitingu heimildar til bráðabirgðalaga hafi ríkisstjórnin farið út á ystu nöf. Þetta þrítók hv. þingmaður. Og það var athyglisvert að hann sagði aldrei í ræðu sinni að ríkisstjórnin hefði hrotið út af stapanum. Með öðrum orðum, ég get ekki skilið ræðu hv. þingmanns öðruvísi en svo að hann telji að í þessu tilviki hafi þetta verið réttlætanlegt. Tvennt nefndi hann jafnframt í ræðu sinni sem styrkir þá túlkun mína. Í fyrsta lagi vakti hann eftirtekt á því að gert væri ráð fyrir að ríkisvaldið hefði töluvert rúmar heimildir til að túlka hvenær slík neyðartilvik koma upp að réttlætanlegt sé að grípa til úrræðisins. Í öðru lagi nefndi hann einnig sem ég skildi svo að það yki svigrúm ríkisvaldsins í þessu efni að þarna væri um að ræða aðgerð sem tæki til mikils fjölda. Þetta finnst mér allt saman skipta máli.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að ríkisstjórnin verður að beita sig miklum aga varðandi þetta úrræði og ég tel að (Forseti hringir.) það eigi að fara mjög spart með það. En ég tel að þetta sé sérstakt tilefni og þetta séu sérstakar aðstæður sem beri að taka tillit til.