135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[14:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, fyrir ágæta framsögu hans og fyrir vinnu hans að þessu máli og þá ekki síst það að leggja jafnmikið á sig og hann gerði til að samstaða gæti tekist um afgreiðslu málsins. Ég stend að afgreiðslu utanríkismálanefndar með fyrirvara eins og fram hefur komið og ætla að gera grein fyrir honum, hafandi þó gagnrýnt ýmislegt í þessu máli nokkuð ákveðið við 1. umr. Ég vil fyrir mitt leyti taka fram að ég lagði það á mig talsvert að teygja mig til sátta í þessu máli og ég gerði það ekki síst vegna þess að mér er annt um málaflokkinn. Ég er algerlega sammála formanni utanríkismálanefndar að það er mikilvægt að menn reyni að skapa sem besta þverpólitíska sátt um þennan mikilvæga, viðkvæma málaflokk og að hann njóti sem allra öflugasta bakstuðnings á Alþingi sem og annars staðar í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu geri ég það með ánægju líka að reyna að ná saman við menn ef það er í boði þannig að það þurfti svo sem ekki þetta til en ég neita því ekki að mér fannst við aðstæður sem þessar óvenjurík skylda hvíla á öllum að reyna að ná um þetta sæmilegum friði.

Það var margt jákvætt í frumvarpinu þegar það birtist okkur og það tók ég skýrt fram í ræðu minni við 1. umr. málsins. Þegar ég blaða í henni sé ég að ég hef eytt a.m.k. fyrstu blaðsíðunni af þremur nokkurn veginn í það að hrósa því sem vel væri gert í frumvarpinu og væri í rétta átt þótt enginn deili um að það var tvímælalaust orðin þörf á að endurskoða lagaákvæði á þessu sviði jafnmikið og tímarnir hafa breyst frá því að fyrst voru sett lög um þetta og skipulag og starf Þróunarsamvinnustofnunar mótað í grófum dráttum eins og það hefur haldist síðan. Síðan bætist það auðvitað við að enn eru uppi áform um að auka framlög okkar til þróunarsamvinnu eins og reyndar lengi hafa verið en því miður gengið sorglega hægt að hrinda þeim í framkvæmd. Það þokast í rétta átt en auðvitað allt of, allt of hægt. Á það höfum við verið minnt með ýmsum hætti, Íslendingar, svo sem eins og þegar við höfum mikil markmið og áform um að gera okkur gildandi á alþjóðavettvangi og sækjast jafnvel eftir æðstu metorðum í þeim efnum, ef svo má að orði komast, og að axla þá mestu ábyrgð sem menn kannski gera í alþjóðasamvinnu með því að taka sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þá var það auðvitað ekki besta veganestið sem við gátum lagt af stað með í þann leiðangur fyrir nú utan allt annað að vera í hópi þeirra þróuðu ríkja og auðugu ríkja sem verma nokkurn veginn botninn hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu. Við höfum verið þar lengi í skammarkróknum með Bandaríkjum Norður-Ameríku og varið um 0,15–0,20% af þjóðartekjum til þróunarsamvinnu.

Það sem var gagnrýnisvert í þessu frumvarpi að mínu mati og ég setti einkum hornin í ef svo má að orði komast við 1. umr. málsins voru þættir sem lúta að fyrirkomulaginu og skipulaginu í þessum efnum og einkum og sér í lagi því að blanda öðrum þáttum og jafnvel óskyldum saman við viðfangsefnið þróunarsamvinnu. Ég hef, hafði og hef enn efasemdir um að það sé skynsamlegt að fella niður sjálfstæða stjórn yfir Þróunarsamvinnustofnun sem framkvæmdatæki hins opinbera á þessu sviði og var mjög ósáttur við frágang mála eins og frumvarpið leit út en þar hefur utanríkismálanefnd sameinast um umtalsverðar breytingar sem að mínu mati eiga að geta tryggt miklu sterkari aðkomu og þátttöku Alþingis og stjórnmálaflokkanna eða þingflokkanna í þessu verkefni og það er vel. Það er verulegt skref í rétta átt sem fólgið er í breytingartillögum nefndarinnar um þróunarsamvinnunefnd, kosna af Alþingi, sjö manna, og þar vek ég athygli á orðalaginu „að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu“ o.s.frv. Það er rétt að fram komi, ég tók ekki eftir hvort það beinlínis kom fram í máli formanns og framsögumanns, að að baki liggur sá skilningur að staðið verði þannig að málum hér að öllum þingflokkum verð tryggð aðild að þessu ráði. Þannig var það rætt í utanríkismálanefnd. Það er svona eins og mundi kallast á dönsku „underforstået“ að menn muni reyna að leita samkomulags um að þannig verði stillt upp til kjörs í stjórnina að einar saman hlutfallsreglur ráði þar ekki endilega för heldur verði markmiðið að reyna að tryggja öllum þingflokkum aðild að málinu í þeim anda að menn ætli að reyna að varðveita sem breiðasta og öflugasta þverpólitíska samstöðu um málið.

Eftir standa þættir sem ég vil aðeins ræða hér og það er áfram spurningin um stöðu þessa málaflokks og hvernig honum er sinnt og hvernig honum er fyrir komið innan stjórnsýslunnar. Ég er algerlega bjargfast sannfærður um að það er málaflokknum fyrir bestu og öllum fyrir bestu að þróunarsamvinnuviðfangsefnið í heild sinni sé algerlega sjálfstætt, að það sé þannig um það búið og öðrum hlutum ekki blandað saman við það. Þess vegna fagna ég náttúrlega alveg sérstaklega samstöðunni sem tókst um að leggja til að 6. gr. falli einfaldlega brott því að hún á ekkert erindi inn í þetta mál, ekki neitt. Þar er verið að fjalla um íslensku friðargæsluna sem er allt, allt annar hlutur. Þó að í hinu alþjóðlega reikningsverki fáist hún bókfærð sem framlag af okkar hálfu til þróunarsamvinnu, einfaldlega vegna þess að henni er ekki sinnt af her og hún fæst flokkuð sem borgaraleg aðstoð og er nú vonandi að þróast aftur í rétta átt hvað það varðar að vopnaburðurinn sé á undanhaldi og þetta verði meira í anda gildandi laga um friðargæsluna að um eingöngu og hrein borgaraleg störf við gæslu friðar, uppbyggingu og fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði friðarmála o.s.frv. verði að ræða. Af þessu og atburðum sem við höfum nýlega rætt hér eins og í Afganistan eiga menn að læra.

Eftir stendur að þau áform munu vera uppi í utanríkisráðuneytinu að sameina á einu stjórnsýslusviði innan ráðuneytisins bæði verkefni þróunarsamvinnu og friðargæslu. Það er að mínu mati óskynsamlegt og ég ætla að leyfa mér, í anda þess sem hér svífur nú mjög yfir vötnum að menn vilji ná saman um þessa hluti, að beina eindreginni áskorun til hæstv. utanríkisráðherra, sem er með okkur í umræðunni, að endurskoða þessi áform og ganga þannig stjórnskipulega frá málinu innan ráðuneytisins að þróunarsamvinnan verði algerlega sjálfstæður málaflokkur, ekki blandað saman við önnur svið ráðuneytisins. Hægt er að færa að mínu mati mjög sterk rök sem fátt hnekkir fyrir því að þannig sé best um þetta búið. Ég nefni sem dæmi hversu mikilvægt það er fyrir málaflokkinn, fyrir þá sem þar starfa, fyrir orðstír þess sem við viljum gera vel í þessum efnum og fyrir þá sem vilja verja þennan málaflokk og réttlæta fjárútlát til hans að reynt sé að standa þannig að málum að það sé alltaf hafið yfir gagnrýni. Þá er það algerlega nauðsynlegt að þróunarsamvinnan sé með fullkomna fjarvistarsönnun frá því að öðrum hagsmunum sé blandað inn í hana, að hún sé algerlega hrein og rekin á eigin forsendum, ekki í þágu þess að við ætlum að hafa eitthvað út úr henni sérstaklega annað en það að okkur líði vel vegna þess að við erum að reyna að gera okkar og leggja okkar af mörkum. Þaðan af síður af því að við ætlum að reyna að græða eitthvað á henni eða hafa eitthvað út úr henni sem slíkri og allra síst að við ætlum í gegnum hana að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum eða séum að reyna að læða öðrum hagsmunum samhliða með í farteskinu.

Ég tek sem dæmi þá stöðu sem er uppi nákvæmlega núna að Ísland er að keppa að sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hversu ákaflega óheppilegt það væri ef við misstum t.d. upp mikla umræðu um það sem fótur væri fyrir, eitthvað efnislegt væri á bak við, að við værum í gegnum þróunarsamvinnuna og samskipti okkar við önnur lönd í þeim efnum að reyna að afla okkur atkvæða í þessari kosningabaráttu. Ég ætla ekkert að segja meira um þennan þátt málsins, ég tek þetta bara sem dæmi um það sem getur verið að varast í þessum efnum.

Þess vegna var ég og er algerlega andvígur því líka að friðargæslunni sé blandað saman við þetta þó svo að hún flokkist þarna með í bókhaldinu, einfaldlega vegna þess að þá erum við komin út í allt aðra hluti sem verða ábyggilega hér eftir sem hingað til miklu umdeildari. Jafnvel þó að við séum að ná eitthvað saman í þeim efnum þegar menn eru að læra af mistökunum og afvopna friðargæsluna og kalla hana út úr verkefnum þar sem menn hafa verið undir hernaðartitlum á átakasvæðum með vopnaburð, þá er sú staða auðvitað alltaf uppi og opin að það geti orðið umdeilt mjög og um það pólitískar deilur og átök hvað menn eru að gera eða ekki að gera í slíkum hlutum sem tengjast oft pólitískum stóratburðum á alþjóðavettvangi, umdeildum atburðum, styrjaldarrekstri o.s.frv. Þá er svo miklu, miklu betra að þarna sé algerlega veggur á milli og engin hætta á að tortryggni skapist eða neitt komi upp. Þess vegna endurtek ég áskorun mína til hæstv. ráðherra um að fara aftur yfir áformin hvað varðar hið innra skipulag í ráðuneytinu og þó að það sé auðvitað í sjálfu sér innanhússmál þar svo langt sem það nær samkvæmt stjórnskipuninni að deildarskipta eða flokka upp verkefni ráðuneytisins þá er hér um að ræða mjög stóran og mikilvægan hlut sem hefur pólitíska tengingu. Ég held að það gæti líka verið ágætt að hið nýja þróunarsamvinnuráð og nefnd sú sem kosin verður væntanlega í framhaldi af setningu laganna, Þróunarsamvinnunefnd, fengi einfaldlega að skoða þessa hluti og gefa sitt álit til ráðherra áður en einhverjar ákvarðanir verða teknar og reglugerð sett eða hvers konar frágangur er á þeim málum.

Ég vil svo taka fram að fyrirvari minn lýtur á vissan hátt líka að starfsmannamálunum og ég get að mestu leyti vísað til þess sem formaður fór yfir í framsöguræðu sinni í þeim efnum. Nefndin skoðaði þetta nokkuð vel og fór yfir það fram og til baka, var held ég mjög umburðarlynd þegar hún í aðalatriðum féllst á rökin fyrir því að hér væri réttlætanlegt að viðhafa nokkrar sérreglur. Ég var kannski í þyngri kantinum hvað það varðar einfaldlega vegna þess að ég skrifa ekkert alveg upp á það að þau viðfangsefni sem þarna er verið að glíma við, að slepptu því sem lýtur að búsetu manna og verkefnum erlendis, séu eitthvað svo sérstök umfram annað sem gert er í stjórnsýslunni að búa þurfi til nánast einhvern sérstakan vinnurétt fyrir utanríkisráðuneytið, það hefur gætt tilhneigingar í þá átt. Ég minni á að þetta er aldeilis ekki eina frumvarpið sem við höfum verið að fást við á Alþingi úr þeirri átt þar sem menn hafa talið sig þurfa heilmiklar heimildir til að víkja frá hinum almennu leikreglum á hinum opinbera vinnumarkaði og færa menn til án auglýsinga og ýmislegt í þeim efnum með miklu rýmri hætti en annars staðar er tíðkað. Ég held að menn þurfi að gæta sín aðeins þarna, að sannfæra sjálfa sig ekki um að þeir séu að vinna í einhverjum svo óskaplega miklu æðri heimi að almennar leikreglur á opinberum vinnumarkaði dugi þeim ekki. Það þarf að færa sterk rök fyrir því í hverju tilfelli, eins og formaður utanríkismálanefndar reyndar sagði, ef ekki á að halda sig við hinar almennu reglur. Það gildir um að auglýsa störf, það gildir um tímabundnar ráðningar og það gildir um að færa menn fram og til baka á þeim vettvangi. Hvað varðar erlendu búsetuna og þær aðstæður sem hún skapar starfsmönnum og fjölskyldum þeirra eru gild rök, það þarf að horfa til þess, en þegar menn eru farnir að bera það á borð að það sé vegna þess að einhver alveg sérstök sérfræðiþekking sé í þessum málaflokki sem lúti einhverjum öðrum lögmálum en annars staðar og þess vegna þurfi út af heilabúinu í mönnum að vera hægt að fara einhvern veginn öðruvísi með þá en starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni eða einhvers staðar annars staðar í stjórnsýslunni, það kaupi ég ekki. Þarna þurfa menn að gæta sín.

Að lokum, herra forseti, ætlaði ég að ræða gildistökuákvæðið en það má segja að formaður hafi tekið af mér ómakið. Ég rak auðvitað augun í það að við þurfum að gera þar breytingar á og vaknaði allt í einu upp til þess að við erum komin inn í 2. umr. og hafði þá hugsað mér að biðja um að henni yrði ekki lokið fyrr en við gætum komið fram breytingartillögu, en það er að sjálfsögðu hárrétt að hana má flytja við 3. umr. og væntanlega er fullnægjandi að gera þetta eins og formaður lagði til, að miða þarna við 1. nóvember. Mér hafði einfaldlega dottið í hug að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar fengi svipaðan tíma og við höfðum ætlað henni í vor til að ljúka störfum sínum og skila af sér, þ.e. bara til áramóta, en það er bitamunur en ekki fjár og væntanlega eru menn á þeim bænum orðnir nokkuð vel undir það búnir að það líði að lokum þess að þeir hafi umboð, hafandi fylgst með málinu frá vordögum.

Ég fagna því að þrátt fyrir allt hefur náðst samkomulag um að lagfæra þetta mál að mínu mati heilmikið. Utanríkisráðherra hefur í valdi sínu að gera það enn betur í anda þess sem hér svífur yfir vötnum. Ég túlka þær breytingar sem utanríkismálanefnd leggur hér til alveg hiklaust í þá átt — það er vissulega mín túlkun — að vilji Alþingis standi til þess að hafa þróunarsamvinnumálaflokkinn mjög sjálfstæðan og blanda öðru ekki saman inn í hann, samanber tillögu okkar um að fella 6. gr. niður, og að ráðuneytið ætti að taka mið af þeirri leiðsögn sem Alþingi er í raun og veru að leggja til með þessum breytingum.

Þá eru 3 mínútur og 16 sekúndur eftir af ræðu minni, herra forseti, og ég held að þessu mæltu ljúki ég máli mínu og þar með er ég farinn í göngur.