135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

framlög til menntastofnana.

[13:57]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í fréttum dagsins í dag kemur fram að Ísland ver mestum framlögum til menntastofnana samkvæmt nýju riti OECD. Þar kemur fram að Ísland lagði á árinu 2005 til 8% af vergri þjóðarframleiðslu á meðan önnur ríki OECD lögðu til 6,1%.

Í umræddu riti kemur einnig fram að á árunum 2000–2005 hafa framlög til allra skólastiga á landinu aukist um 61% á föstu verðlagi sem er mesta aukning innan OECD-ríkjanna. Framlög til grunn- og framhaldsskóla jukust á árunum um 40% en um 77% til háskólastigsins.

Þetta er merki um fjárfestingu í menntun í íslensku samfélagi sem ber að fagna. Því ber að fagna að Ísland ætlar sér og mun undir kröftugri forustu hæstv. menntamálaráðherra fleyta Íslandi áfram í krafti þekkingar og menntunar. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Mun hún með einhverjum hætti nýta þessa greiningu OECD-ríkja til að efla enn frekar gæði skólastarfs á öllum sviðum? Og í öðru lagi: Hefur verið kannað formlega á hvern hátt aukin fjárfesting í menntun skilar sér til samfélagsins í heild og er þá bæði átt við efnahagsvog og ánægjuvog?