135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:45]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um sjúkratryggingar. Margt hefur komið fram í ummælum þingmanna í dag en þó held ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi eiginlega toppað alla lágkúru með þeim orðum sínum um stjórnarþingmenn að þeir nenni ekki að setja sig inn í málið og muni greiða atkvæði með bundið fyrir augun. Ef þetta er málefnaleg umræða, frú forseti, um frumvarp til laga um sjúkratryggingar þá er illa farið fyrir hv. alþingismönnum.

Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði, tryggja jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag samkvæmt nánari ákvæðum frumvarpsins og í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um réttindi sjúklinga og önnur lög eftir því sem við á. Í frumvarpinu er með skýrum hætti mælt fyrir um réttindi einstaklinga á Íslandi til að njóta sjúkratrygginga og þar með til heilbrigðisþjónustu sem greiðist úr ríkissjóði.

Sjúkratryggingar eru skilgreindar með ítarlegum hætti og taka til heilbrigðisþjónustunnar og annarrar aðstoðar sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins. Jafnframt taka sjúkratryggingar til bóta samkvæmt lögum sem greiddar eru með peningum.

Mér segir svo hugur að væntanlega verði flestir þingmenn jákvæðir gagnvart þessum þáttum frumvarpsins en það er jafnframt markmið þessa frumvarps að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar og hámarksgæðum hennar. Það er einnig markmið frumvarpsins að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustunnar og að kostnaðargreina þjónustuna, hver gerir hvað, hvenær og hvernig.

Þá er og kveðið á um sjúkratryggingastofnun, hlutverk hennar, stjórn og forstjóra samkvæmt II. kafla, 5. gr. Með sjúkratryggingastofnun er að því stefnt að sameina alla þá þekkingu ríkisins sem fer með greiðslur, samninga og kaup á heilbrigðisþjónustu til að ná samlegðaráhrifum slíkrar þekkingar á einum stað og að þróa slíka þekkingu miðað við aukna sérfræðiþekkingu sem þessir verkþættir þurfa að hafa og kalla á. En ekki síður, hæstv. forseti, sem er afar mikilvægt í heilbrigðisþjónustu landsins, að mæta vaxandi kröfum um gegnsæi í samskiptum ríkisins og borgaranna, gegnsæi sem er nauðsynlegt fyrir alla til að geta metið í hverju þjónustan er fólgin, hver eru gæði hennar og hvernig við ætlum að halda áfram að veita gæðaþjónustu.

Hæstv. forseti. Í febrúar síðastliðnum kom út skýrsla OECD um heilbrigðismál og þar eru lagðar fram tillögur sem lúta að heilbrigðisþjónustu á Íslandi og í þeim tillögum felst m.a. að auka kostnaðarvitund, að gera vel skilgreinda þjónustusamninga, að styrkja kaupandahlutverk hins opinbera. Í sömu skýrslu er bent á hve ung þjóðin sé og ef við höldum áfram á sömu braut í heilbrigðisþjónustunni komi það til með að kosta hátt í helming vergrar landsframleiðslu þegar til lengri tíma er litið. Þessir þættir vega afar þungt sem rök í þessu breytingarferli heilbrigðisþjónustunnar.

Um 5. gr. frumvarpsins er ágreiningur og sér í lagi ágreiningur hv. þingmanna VG sem kemur hér fram við 3. umr. sem og við hinar fyrri.

Við Íslendingar berum okkur gjarnan saman á ýmsum sviðum við önnur lönd og lítum oftar en ekki til Norðurlandanna og annarra vestrænna ríkja í því sambandi. Heilbrigðiskerfin í Svíþjóð og Bretlandi eiga það sameiginlegt með íslenska heilbrigðiskerfinu að kostnaður við þjónustuna er fjármagnaður með sköttum og opinber rekstur á sér langa sögu í þessum löndum eins og á Íslandi. Þessi lönd eru meðal þeirra landa sem hafa hvað mesta reynslu af innleiðingu á fyrirkomulagi kaupenda og seljenda innan opinberrar heilbrigðisþjónustu. Þau og þá sér í lagi Svíþjóð eru góð viðmið fyrir það verkefni sem nú er fram undan í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Það er ljóst að ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti þessara hugmynda og vísa hv. þingmenn Vinstri grænna gjarnan í Göran Dahlberg og Allyson M. Pollock andstöðu sinni til stuðnings. Og eins og margoft hefur komið fram leggja þeir fyrirlestra þessara tveggja fræðimanna sem fluttir voru á vegum BSRB fram sem fylgiskjöl til stuðnings pólitískri skoðun sinni.

Ég virði skoðanir VG en ég er þeim einfaldlega ekki sammála. Mér þykja harla sérkennileg svör Allyson M. Pollock þegar hún er spurð af Elsu B. Friðfinnsdóttur hvort nýleg skýrsla OECD þar sem því er haldið fram að ef við einkavæðum ekki heilbrigðiskerfið í auknum mæli og m.a. sé tekið tillit til aldurs þjóðarinnar, þá sigli í strand. Því svarar fræðimaðurinn, með leyfi forseta:

„Ég mundi segja að skýrsla OECD sé ekki sérlega rökrétt eða vel unnin. Ég kem ekki auga á tengslin milli hinna aðskildu fullyrðinga.“

Seinna segir Allyson Pollock, með leyfi forseta: „Og þetta með aldurssamsetningu samfélagsins er hrein og klár rökleysa.“

Í þriðja lagi segir fræðimaðurinn, með leyfi forseta: „Þannig að ég mundi vera mjög á varðbergi gagnvart því sem segir í skýrslu OECD og skoða það gaumgæfilega sem í henni er haldið fram, hvaða sönnur eru færðar á það, hverjar heimildirnar eru og heimildarmenn.“

Allyson Pollock er jafnframt spurð á þessum fyrirlestri hjá BSRB um afstöðu breskra læknasamtaka. Með leyfi forseta, þá svarar fræðimaðurinn sem er læknir að mennt:

„Stjórn bresku læknasamtakanna hafa svikið grasrótina í samtökunum. Bresku læknasamtökin hafa gegnt mikilvægu hlutverki í einkavæðingunni. Meðal almennra félaga, hjá mér þar með talinni, gætir vaxandi reiði yfir þessari þróun og andóf og uppreisn á sér nú stað.“

Hæstv. forseti. Fyrrverandi landlæknir, Ólafur Ólafsson, spurði fræðimanninn hvort einhverja tölfræðilega fylgni megi merkja milli útgjalda til heilbrigðismála og hækkandi meðalaldurs þjóða og fræðimaðurinn svaraði á þennan hátt:

„Nei, það er engin fylgni þar á milli, það er allt of takmörkuð sýn á máli. En svona eru nú gögnin í skýrslu OECD hlægileg. Og þetta er mjög gott svar við henni.“

Þessi fræðimaður svarar því með öðrum orðum að OECD-skýrslan sem kom út í febrúar um heilbrigðismál, m.a. á Íslandi, sé einskisvert plagg. Ég tel að í þessum svörum fræðimannsins sé hún frekar að viðra eigin skoðanir en vísindalega skoðun eða þekkingu eða fræðimennsku. Hins vegar er margt í þessum fyrirlestri sem haldinn var á vegum BSRB og er fylgiskjal pólitískra skoðana vinstri grænna til þess fallið að við getum skoðað og varað okkur á ýmsum mistökum.

Í ágúst síðastliðnum fékk heilbrigðisnefnd Alþingis tækifæri til að fara til Stokkhólms og hlýða á og ræða við stjórnmálamenn frá Stokkhólmsléni, þá Stig Nyman frá kristilegum demókrötum sem situr í stjórn Stokkhólmslénsins og Anders Lönnberg frá sósíaldemókrötum sem er í stjórnarandstöðu, sem og ýmsa sérfræðinga sem má nafngreina hér og við hittum, svo sem Anders Wijkman, Önnu Hedlin, Sören Berg, Richard Lindkvist, Gunnel Blomgren og Birgi Jakobsson. Allir þessir sérfræðingar hafa unnið innan heilbrigðiskerfisins í Svíþjóð. Ég tek það fram að mér er ekki kunnugt um stjórnmálaskoðanir þessara sérfræðinga. Eini maðurinn sem viðraði stjórnmálaskoðanir sínar í þessari ferð var Birgir Jakobsson sem sagðist hafa verið vinstri sinni á yngri árum en tæki ekki þátt í pólitík dagsins í dag. Allir þessir sérfræðingar hafa unnið innan heilbrigðiskerfisins í Svíþjóð og komið að innleiðingu þessarar nýju hugsunar í heilbrigðisþjónustunni. Og allir þessir aðilar, stjórnmálamenn og sérfræðingar, voru sammála um að ekki yrði horfið aftur til þess sem var, þess kerfis sem var áþekkt því sem við þekkjum í dag, allir þeirra.

Það var eftirtektarvert þegar Birgir Jakobsson sem starfaði á Sankt Görans, einkasjúkrahúsi í Stokkhólmi, og fór síðan yfir sem forstjóri Karolinska í Huddinge í Stokkhólmi, sagði frá því að þar sem hann var forstjóri í Sankt Görans hafi þankagangur þeirra sem þar unnu verið allt annar. Þegar hann kom á Karolinska var viðtekinn kúltúr meðal hinna opinberu starfsmanna í þá veru að það gerði ekkert til, frú forseti, þó að farið væri fram úr fjárlögum vegna þess að það fengist bætt. Þetta sagði Birgir Jakobsson, núverandi forstjóri háskólasjúkrahússins, Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. Og þarna voru starfsmenn, sérfræðingar innan heilbrigðiskerfisins. Mig langar í því tilefni að vitna í erindi sem Göran Dahlgren hélt á vegum BSRB og er fylgiskjal með minnihlutaáliti þingmanna Vinstri grænna til að styðja þeirra pólitísku skoðun. Þar segir hann, þegar hann er spurður að því hvaðan hvatar komi til þess að reka á eftir svokallaðri markaðsvæðingu í opinberri heilbrigðisþjónustu, hann segir að þeir komi frá atvinnulífinu en hann segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Læknasamtök og stéttarfélög heilbrigðisþjónustufólks hafa haft lykiláhrif á þróun í átt að aukinni aðkomu markaðsafla enda þjónar það í mörgum tilvikum hagsmunum þessara hópa að geta tekið þátt í rekstri eða fengið vinnu hjá fyrirtækjum á markaði.“

Það er tvennt í þessu, frú forseti, sem vekur athygli. Í fyrsta lagi að það eru læknasamtök og stéttarfélög í heilbrigðisþjónustunni í Svíþjóð, samkvæmt fyrirlestri þessa ágæta fræðimanns, sem hafa skipt meginmáli, hafa verið lykilaðilar í þeirri þróun sem þar er á ferð. En hann dregur úr hæfni lækna og stéttarfélaga í heilbrigðisþjónustunni með því að ýja að því að hagsmunir þeirra séu aðrir og meiri hvað varðar vinnu og laun og þeir beri sína hagsmuni meira fyrir brjósti en hagsmuni heilbrigðisþjónustunnar.

Ef ekki er hægt að treysta fagfélögum, fagfólki innan heilbrigðisstétta, til að leiða þessa þróun, til að hafa áhrif á hana og vera í lykilhlutverki, hverjum er þá hægt að treysta? Ætla einstaka hv. þingmenn á Alþingi, með þá takmörkuðu þekkingu og reynslu sem flestir þeirra hafa væntanlega á fagþekkingu heilbrigðisstétta, að segja fólki hvað okkur er fyrir bestu innan heilbrigðisþjónustunnar og hvernig við eigum að stýra henni? Það kemur mér svo sem ekki á óvart að hv. þingmenn Vinstri grænna vilji haga því þannig vegna þess að forsjárhyggjan er þeirra. Hún er þeirra í einu og öllu og þeir sem ekki eru sammála eru vondir. Það sem kemur frá einkaaðilum til að betrumbæta þjónustu, bæta hagkvæmni, og auka gæði er vont vegna þess að það er einkarekstur og hann er gegnumsneitt afar slæmur eins og ég skil málflutning hv. þingmanna Vinstri grænna.

Frú forseti. Heilbrigðisþjónustan er ein af undirstöðum okkar samfélags og hún er okkur öllum afar mikilvæg. Þess vegna er það mikilvægara en margt annað fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi að við göngum til verka í átt að því göngulagi sem þetta frumvarp til laga um sjúkratryggingar kveður á um. Ég styð þetta frumvarp (Forseti hringir.)heils hugar.