135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:05]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vitnaði í ræðu minni hér áðan orðrétt í það sem fræðimaðurinn hafði sagt um OECD-skýrsluna. Þau orð gera vinstri grænir að sínum þar sem þau leggja fyrirlesturinn fram sem fylgiskjal með nefndaráliti. Það gefur augaleið. Þeir eru þá einfaldlega sammála niðurstöðum þessa fræðimanns um skýrslu OECD.

Ég taldi í því sem ég las hér að ekki lægju sýnilegar vísindalegar rannsóknir að baki svörum þessa ágæta fræðimanns. Mér þóttu þetta vera prívatskoðanir hennar á umræddri OECD-skýrslu og hvergi nokkurs staðar hrekur hún það.

Með leyfi, frú forseti, þá stendur hér:

„Og þetta með aldurssamsetningu samfélagsins er hrein og klár rökleysa því ekkert gefur tilefni til að ætla að ekki megi mæta hækkandi aldri eða breyttum þverskurði samfélagsins á farsælan hátt.“

Hvaða rök og hvaða vísindaleg niðurstaða er það að „mæta einhverju á farsælan hátt“? Flestir reyna að mæta breytingum á farsælan hátt en það á hvorki skylt við vísindi né fræðigrein.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir lýsti því hér yfir að hún ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna gæfi ekkert fyrir OECD-skýrsluna. Við þyrftum ekki að leita langt yfir skammt til þess að kynna okkur og finna upp hjólið. Ég bendi bara á þessi tvö erindi, þessa tvo fyrirlesara á vegum BSRB, sem eru fylgiskjöl til þess að styðja við skoðanir hv. þingmanna Vinstri grænna. Þá er allt í lagi að fara út fyrir landið ef það hentar skoðunum manns hverju sinni.