135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:38]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn okkar sé þess umkominn að lýsa því yfir í öllum málum hvað sé rétt og hvað sé rangt, við erum ekki það fullkomin sem erum hér á þingi þó að við gerum okkar besta.

Ég vara við því að hv. þingmenn tali á þann hátt að það sé markmið stjórnmálaflokka eða alþingismanna að brjóta mannréttindi. Það er algjörlega fráleitt því að allir þeir þingmenn sem hér eru vilja virða mannréttindi. Þannig er það. Ég nefndi áðan í svari mínu að mannréttindanefndin hefði brugðist við, hún hefur lýst ánægju sinni með svar stjórnvalda og ætlar að fylgjast með þeim hugsanlegu breytingum sem kunna að verða gerðar. Í þeim viðbrögðum er engin krafa gerð um bætur, enda stjórnvöld bundin af þeim dómi sem ég vísaði til áðan. Ef stjórnvöld mundu lýsa því yfir að greiða þyrfti bætur væri í raun og veru verið að segja: Það þarf að greiða öllum bætur. Það þarf að greiða öllum bætur sem ekki hafa fengið aflaheimildir og það þarf þá líka að greiða þeim bætur sem hafa fengið aflaheimildir því að væntanlega þarf að taka þær af þeim. Væntanlega þarf að leggja kerfið niður.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir það — (Gripið fram í.) já, ég veit að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að leggja eigi kerfið niður. Hins vegar er þeim sem eru að reyna að stunda hér ábyrg stjórnmál og ábyrga stjórnun það ljóst að það verður ekki gert í einu vetfangi. Á næstu dögum verður sett á laggirnar nefnd til að fara yfir þetta á svipaðan hátt og þegar auðlindanefnd var sett á laggirnar á sínum tíma. Það verður farið yfir þetta. Ég skil vel vonbrigði hv. þingmanns yfir að mannréttindanefndin sé ánægð með svör stjórnvalda vegna þess að þetta er kannski það mál (Gripið fram í.) sem viðkomandi stjórnmálaflokkur hefur gert út á.

Það er samt afar mikilvægt að þessi umræða fari fram og stjórnvöld eru að bregðast við, og munu bregðast við og skoða þetta í þaula.