135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:55]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á ákveðnum hlutum sem koma fram í nefndaráliti frá viðskiptanefnd, þar segir m.a.:

„Enn fremur ræddi nefndin á fundum sínum um skilyrði setningar bráðabirgðalaga eins og þau koma fram í 28. gr. stjórnarskrárinnar og hvort umrædd bráðabirgðalög hafi uppfyllt þau skilyrði. Í greininni segir að bráðabirgðalög verði aðeins sett ef Alþingi er ekki að störfum og brýna nauðsyn ber til lagasetningarinnar en auk þess mega bráðabirgðalög ekki brjóta í bága við stjórnarskrá.“

Þarna kemur fram ákveðin þungamiðja, að nefndin fjallar um þetta með faglegum hætti, með hvaða hætti og hvernig þessi bráðabirgðalög eru sett og kemst að þeirri niðurstöðu að setning bráðabirgðalaganna hafi í sjálfu sér ekki farið í bága við 28. gr. stjórnarskrárinnar. Með undirritun sinni eða því sem þarna kemur fram eru nefndarmenn í sjálfu sér ekki að lýsa yfir stuðningi við annað en það að gera grein fyrir því — það er hvergi verið að lýsa yfir fögnuði yfir setningu bráðabirgðalaganna en hins vegar verið að segja að þarna hafi verið farið að með stjórnskipulegum hætti.

Eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. þessa máls þá tel ég að við setningu þessara bráðabirgðalaga hafi verið farið á ystu nöf en ekki yfir brúnina nema hvað varðaði það atriði sem ég gerði sérstaka athugasemd við, að ráðherra væri heimilað að gera breytingar með reglugerð varðandi breytingar á lágmarki fjárhæða. Það var einróma mat nefndarinnar að það hefði verið óeðlilegt að hafa slíkt ákvæði eða setja slíkt ákvæði í bráðabirgðalög þannig að nefndin leggur til einróma að þetta verði tekið í burtu. Með tilliti til þess hefur því verið komið til móts við þá gagnrýni og þau sjónarmið sem ég rakti hér í ræðu minni við 1. umr. málsins og ég er ánægður með það því að ég taldi að það ákvæði í bráðabirgðalögunum ætti ekki heima þar og þar væri farið yfir þau mörk sem væru eðlileg. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga og það skiptir máli varðandi setningu bráðabirgðalaga. Ég lít þannig á að með þessari niðurstöðu sé það skoðun nefndarinnar að það megi ekki setja ákvæði eins og þetta í bráðabirgðalög, það sé hins almenna löggjafa að fjalla um atriði sem séu valkvæð með þeim hætti svo sem þar er kveðið á um. Þá koma líka til hlutir eins og hvort um er að ræða ívilnandi eða íþyngjandi atriði sem skipta verulegu máli, ekki síst þegar um afturvirkni laga er að ræða.

Við setningu þeirra bráðabirgðalaga með breytingu á viðlagatryggingu var um ívilnandi aðgerð að ræða til handa þeim sem höfðu orðið fyrir tjóni. Það liggur fyrir að við setningu afturvirkra laga sem eru ívilnandi eru rýmri heimildir þar sem heimildir eru ekki þegar um íþyngjandi ákvæði væri að ræða. Með tilliti til þess þá get ég í sjálfu sér ekki annað séð en að lögin falli alveg að þeim ákvæðum stjórnskipunarlaga sem við höfum miðað við og það sem farið hefur verið af hálfu framkvæmdarvaldsins við setningu bráðabirgðalaga til þessa. Við formhliðina er því í sjálfu sér ekki hægt að gera athugasemdir, það er að mínu viti farið á ystu brún varðandi þetta en ekki yfir brúnina. Nefndin er í raun ekki að gera neitt annað í nefndaráliti sínu en að taka undir þau sjónarmið að það sé verið innan ramma þeirra stjórnskipunarlagaákvæða sem um þetta gildi. Það er í sjálfu sér ágætt mál og að það liggi fyrir.

Það liggur líka fyrir og kom fram í ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar í framsögu hans fyrir nefndarálitinu að það ber að fara varlega með beitingu ákvæða bráðabirgðalaga og þá er spurningin við hvaða tækifæri og við hvaða tilefni það sé afsakanlegt að setja bráðabirgðalög. Þá komum við að því þegar um er að ræða náttúruhamfarir og/eða atriði eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi hér áðan varðandi það sem gerðist 11. september fyrir sjö árum síðan, 2001, þ.e. þegar upp koma aðstæður sem gera eðlilegt að taka á þeim sérstöku aðstæðum sem upp koma í viðkomandi þjóðfélagi. Jarðskjálftarnir á Suðurlandi voru náttúruhamfarir sem í sjálfu sér gátu kallað á einhver viðbrögð. Spurningin var þessi: Voru þetta rétt viðbrögð eða voru þetta röng viðbrögð?

Ég hef um árabil bent á það hversu arfavitlaust það væri í þessu þjóðfélagi að hafa verðtryggð lán, að miða við verðtryggingu og hversu það skekkti alla viðmiðun og allan grundvöll í samfélaginu. Fólkið í landinu er að verða vart við það núna með hvaða hætti verðtryggingin er að éta upp eignir þeirra. Það var nákvæmlega það sem hér er um að ræða, vegna þess að lágmarksfjárhæðin var verðtryggð með byggingarvísitölu þá var lágmarksfjárhæðin komin út yfir öll eðlileg mörk. Það hlýtur að vera viðmiðun hæstv. viðskiptaráðherra að þarna hafi þessi verðtrygging verið komin út yfir öll eðlileg mörk og þar af leiðandi hafi brýna nauðsyn borið til að setja þau bráðabirgðalög sem um er að ræða. Ef svo hefði ekki verið hefði enga nauðsyn borið til að gera það.

Það er þetta sem er kannski grundvallaratriðið og sem má benda á í víðtækara samhengi, að verðtrygging, hvort sem miðað er við þessa vísitölu eða einhverja aðra, er einfaldlega óréttlát, hún skekkir allan viðmiðunargrundvöll. Hún étur upp eignir fólks, hún eyðileggur sparnað fólks, og þar af leiðandi ber brýna nauðsyn til, ekki bara í þessu máli heldur líka varðandi lánakjör almennings í landinu að gera ráðstafanir til þess að koma verðtryggingunni út og þessum verðtryggingar- og verðbólguhugsunarhætti sem hún felur í sér.

Ég gat fallist á þau efnislegu sjónarmið sem lágu á bak við og fallist á að verðtryggingarákvæðin sem þarna komu fram hefðu skekkt þann viðmiðunargrundvöll sem um væri að ræða og réttlæti í sjálfu sér að við yrði brugðist með þeim hætti sem hæstv. viðskiptaráðherra gerði. Það liggur fyrir að fjöldi tjónþola var gríðarlega mikill þar sem um var að ræða minni háttar tjón þar sem 5% ákvæðið kemur sennilega ekki til greina, sem helst óbreytt, og það gildir töluvert annað þegar um er að ræða verulegt tjón, t.d. á íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði, þá koma þessi bráðabirgðalög ekki til skoðunar. En þetta var réttlætanlegt og eðlilegt miðað við það sem um var að ræða í þessu tilviki að mínu mati eins og ég sagði við 1. umr. málsins. Undir þau sjónarmið tók hv. þm. Grétar Mar Jónsson á sínum tíma við 1. umr., að þau væru algjörlega málefnaleg og það hefði verið eðlilegt miðað við þær aðstæður sem þarna er um að ræða að gera þessar breytingar.

Það var bent á það við fyrri umræðu að það væri um annað að ræða við ákveðnar aðrar aðstæður þar sem ekki var í raun verið að bera saman sambærilega hluti þar sem altjón urðu nánast vegna þeirra náttúruhamfara sem þar var um að ræða en ekki mörg minni háttar tjón eins og hér ræðir um. Það liggur hins vegar fyrir og er kannski viðmiðun og spurning í þessu máli hvað ríkisvaldið á að skipta sér mikið af þessum málum og það er kannski hin gilda spurning. Á að hvetja fólk til þess að tryggja og hafa allt sitt tryggt þannig að viðlagatrygging komi þá ekki til greina eða með takmarkaðri hætti — eða eigum við að miða við það að þjóðfélagið bregðist við þegar náttúruhamfarir eða aðra slíka vá ber að höndum? Þeirri spurningu hefur ítrekað verið svarað í íslensku samfélagi þar sem þjóðfélagið hefur talið eðlilegt og nauðsynlegt að bregðast við með þeim hætti að taka myndarlega á og hjálpa þeim sem hafa orðið fyrir tjóni vegna slíkra atburða. Ég tel að það sé hluti af þeim mannúðarsjónarmiðum sem hafa einkennt þjóðfélag okkar og gera það kannski eftirsóknarverðara og betra en flest önnur samfélög í veröldinni og ég vil ekki kasta slíkri hugsun og slíkum hugmyndum fyrir róða.

Í nefndarálitinu er vikið að afturvirkni bráðabirgðalaganna og þess sérstaklega getið að ekki séu gerðar athugasemdir við þau atriði þar sem gætt sé málefnalegra sjónarmiða. Ég tel að fleiri atriði komi til og þá ekki síst að þarna er um að ræða að það er miðað við jafnræði þeirra sem urðu fyrir þessu tjóni, það er eitt atriði sem skiptir líka máli, og jafnframt því að þar er um ívilnandi aðgerð að ræða en ekki íþyngjandi. Það er það, þó að um afturvirkni sé að ræða þá sé það heimilt miðað við aðstæður eins og hér er um að ræða.

Þau sjónarmið komu fram hjá Ragnhildi Helgadóttur, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, að í sjálfu sér væri ekki farið á svig við 28. gr. stjórnarskrár lýðveldisins við setningu bráðabirgðalaganna. Ég er sammála því lögfræðilega mati hennar.