135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við í meiri hluta allsherjarnefndar skiljum við málið að svo stöddu einmitt með þann einlæga ásetning að ýta á eftir því að það verði skoðun á báðum þessum þáttum, bæði varðandi það hvar úrskurðarheimildin í nálgunarbannsmálum eigi að liggja og eins varðandi austurrísku leiðina.

Ég vil hins vegar taka það fram, bara umræðunnar vegna, að þarna er um tvö aðskilin mál að ræða. Þau eiga ákveðna samsvörun í ákveðnum málaflokkum en engu að síður er um tvö aðskilin úrræði að ræða. Stundum getur austurríska leiðin átt rétt á sér ein og sér. Stundum getur nálgunarbannsúrræðið átt rétt á sér eitt og sér. Það er ekki alltaf til hjálpar í þessari umræðu að tala um málin eins og að um sama viðfangsefnið sé að ræða.

En burt séð frá því held ég að við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir séum ekkert óskaplega langt hvort frá öðru í þessum málum. Ég held t.d. að þegar við ræðum nálgunarbannið, og það hvar úrskurðarvaldið á að liggja, hafi meðal okkar margra — ég ætla ekki að tala fyrir munn allra nefndarmanna í allsherjarnefnd, en verulegur áhugi var í allsherjarnefnd á að færa úrskurðarheimildina frá dómstólum til lögreglu. Það kom hins vegar líka fram hjá þeim aðilum sem mæltu með því að nálgunarbannsleiðin yrði færð til lögreglu að þeir höfðu ekki og gátu ekki lagt fyrir okkur upplýsingar eða statistik eða annað sem hefði verið nauðsynlegur grundvöllur þess að við gætum tekið ákvörðun í málinu.

Við stóðum því frammi fyrir því varðandi nálgunarbannsmálið hvort við ættum að taka afstöðu til málsins á grundvelli fullyrðinga reyndar frá ágætum og virðingarverðum aðilum gegn fullyrðingum einhverra annarra án þess að hafa gögn og upplýsingar í höndunum. Og það vildum við ekki gera.

Varðandi austurrísku leiðina þá höfum við ekki tekið hana til umfjöllunar með sama hætti og nálgunarbannsmálið og eins og kemur fram í nefndaráliti þá er það mál skemur á veg komið innan nefndarinnar en hitt. En við erum með engu móti að slá hugmyndina út af borðinu eða hafna henni. (Forseti hringir.) Við lýsum þvert á móti áhuga á að hún verið tekin til rækilegrar skoðunar.