135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

starfsemi Íslandspósts.

[11:09]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða við hæstv. samgönguráðherra um málefni Íslandspósts reyndar á töluvert öðrum forsendum en hv. þm. Jón Bjarnason gerði áðan.

Eins og alþjóð veit er Íslandspóstur hlutafélag sem er alfarið í eigu ríkisins. Starfsemi þessa ríkisfyrirtækis hefur verið mér dálítið hugleikin upp á síðkastið vegna þess að það hefur borið nokkuð á því að Íslandspóstur hefur verið að útvíkka starfsemi sína allverulega, hefur m.a. hafið smásöluverslun við einkaaðila út um allt land. Þetta er þróun sem er mér ekki að skapi enda tel ég að ríkið eigi ekki að standa í samkeppnisrekstri við einkaaðila.

Nú ber svo við að Íslandspóstur ætlar sér í frekari markaðssókn og frekari samkeppni við einkaaðila. Það kom fram á forsíðu Fréttablaðsins í gær að ríkið undirbýr samkeppni í flutningum og Íslandspóstur hefur nú útvíkkað hlutverk sitt með það að markmiði að efla starfsemi sína á flutningamarkaði. Ég hugðist spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann teldi þessa þróun eðlilega en hæstv. ráðherra tók af mér ómakið með því að lýsa því yfir í viðtali við Fréttablaðið í dag að hann teldi eðlilegt að ríkið byggði upp flutningaþjónustu í samkeppni við einkarekin fyrirtæki.

Ég get ekki sagt að ég sé mjög ánægður með þetta svar hæstv. ráðherra en í framhaldinu langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að það séu einhver takmörk fyrir því hversu langt ríkið undir merkjum Íslandspósts getur gengið í útvíkkunarstarfsemi sinni og sókn inn á markaði sem einkaaðilar hafa fram til þessa sinnt. Telur hann að það styrki rekstrargrundvöll einkarekinna flutningsfyrirtækja, sem nú um stundir þurfa að berjast í rekstrarumhverfi (Forseti hringir.) sem einkennist af hárri verðbólgu, háum vöxtum, lækkandi gengi krónu, hærra eldsneytisverði, að fá í ofanálag í andlitið samkeppni frá ríkinu af öllum aðilum?