135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

frestun á fundum Alþingis.

665. mál
[11:19]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fitjar hér upp á gamalkunnu umræðuefni. Það er vissulega rétt að 1991 var stjórnarskránni breytt, m.a. með það fyrir augum að tryggja að bráðabirgðalög yrðu ekki gefin út jafnoft og tíðkast hafði á árunum áður. Það hefur gengið eftir. Bráðabirgðalög eru nú mjög sjaldgæf og eru aðeins gefin út ef brýna nauðsyn ber til, eins og segir í stjórnarskránni.

Þessi ríkisstjórn getur ekki frekar en aðrar gefið frá sér heimildir í stjórnarskránni og samkvæmt henni hefur ríkisstjórnin bráðabirgðalöggjafarvaldið þegar Alþingi situr ekki. Fer að vísu eins sparlega með það og unnt er og mun gera það áfram. Það er skoðun mín, eins og væntanlega flestra í þessum sal, að Alþingi eigi helst af öllu að setja lögin en ekki bráðabirgðalöggjafinn en þó geti einstaka sinnum við sérstakar aðstæður reynst nauðsynlegt að grípa til þeirra heimilda sem stjórnarskráin veitir ríkisstjórninni hvað þetta atriði varðar.

Að því er varðar aðstöðuna eins og hún er núna er ljóst að þingið mun koma saman eftir rúmar tvær vikur, þá hefst nýtt reglulegt þing. Ég get ekkert fullyrt um það frekar en aðrir hvað gerist í millitíðinni. Engin áform eru um að gefa út bráðabirgðalög í millitíðinni en ég get heldur ekki fullyrt með 100% öryggi að þær aðstæður skapist ekki að slíks gæti gerst þörf. Þetta er svarið og ég held að þetta hafi allt komið fram áður hér úr þessum ræðustóli.