135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

frestun á fundum Alþingis.

665. mál
[11:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem hann gaf við fyrirspurn minni áðan. Og ég vil segja að það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin getur ekki gefið frá sér það bráðabirgðalagavald sem er í stjórnarskránni. Það er í stjórnarskránni í þeim tilgangi að það verði nýtt samkvæmt þeim skilningi eða reglum sem um það gilda og menn hafa komið sér saman um.

Það er líka rétt hjá hæstv. ráðherra að það hefur dregið mjög úr útgáfu bráðabirgðalaga frá því að stjórnarskránni var breytt árið 1991 og þar er mikill munur á, til bóta. Það var orðið algjörlega óþolandi hvernig ríkisstjórnin beitti þessu bráðabirgðalagavaldi á þann hátt að bíða með lagasetningu þar til þingið var komið heim og þá voru sett bráðabirgðalög með ýmsum umdeildum ákvæðum sem ríkisstjórnin mat eflaust á þeim tíma að yrði erfitt að fara með í gegnum þingið. En eftir að búið var að setja bráðabirgðalög var auðvitað björninn unninn og þingið gat ekki spyrnt því út aftur þegar málið kom fyrir þingið. Það er því kjarninn í málinu að lögin séu gefin út á réttum vettvangi sem þarf að vera fyrir hendi.

Ég held hins vegar og minni á þann skilning sem stjórnmálaflokkarnir komu sér saman um árið 1991 en hann var þannig skýrður í framsöguræðu Margrétar Frímannsdóttur sem var framsögumaður málsins í neðri deild Alþingis á þeim tíma og segir í þeirri ræðu, með leyfi forseta:

„En það er skilningur allra sem að þessu máli hafa staðið að til þess komi ekki nema í sérstökum neyðartilvikum,“ þ.e. að til þess að setja bráðabirgðalög komi ekki til nema með sérstökum neyðartilvikum, „heldur verði tekinn upp sá nýi siður að verði þörf á skjótri löggjöf utan venjulegs starfstíma Alþingis, t.d. yfir sumartímann, þá verði Alþingi kallað saman til aukafunda til þess að afgreiða hana með eðlilegum hætti.“

Þetta er sá skilningur sem stjórnmálaflokkarnir allir komu sér saman um árið 1991 á ákvæði stjórnarskrárinnar um heimild til útgáfu bráðabirgðalaga. Og ég fer fram á það við ríkisstjórnina að hún haldi sig við þennan skilning. Ég fer ekki fram á það að hún gefi út yfirlýsingu um að hún muni aldrei gefa út bráðabirgðalög. Ég fer fram á það að ríkisstjórnin haldi sig við þann skilning sem menn komu sér saman um árið 1991. Og það hefur ekki verið gert á síðustu árum, því miður. Það var ekki gert árið 2003. Það var ekki gert árið 2007 og það var ekki gert árið 2008. Hér er að verða til þróun þar sem einstakir ráðherrar fara að taka minni háttar mál, svona horft á landsvísu, og leysa úr þeim með bráðabirgðalöggjöf.

Ég tel t.d. að málefni Stofnfisks á sínum tíma hafi verið minni háttar mál. Ég geri ekki lítið úr því að það þurfti að bregðast við í því máli. En það var ekki tilefni til að beita bráðabirgðalagavaldinu. Og sama var í fyrra.

Þetta er kjarninn í málflutningi mínum í þessu máli og um útgáfu bráðabirgðalaganna sem hefur farið fram í þingsölum á síðustu dögum. Ég fer fram á það að ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra beiti sér fyrir því að ráðherrarnir haldi sig innan þess ramma sem settur var einróma af öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi árið 1991.

Ráðherrann hefur gefið út þá yfirlýsingu að ekki standi til að gefa út bráðabirgðalög á þeim stutta tíma fram til 1. október þegar þing kemur saman á nýjan leik og sérstaklega tilgreint kjaradeilu ljósmæðra. Ég tel það mikilvægt að þessi yfirlýsing var gefin því hún eyðir þeim grunsemdum að til hafi staðið að leysa þá deilu með löggjöf.

Og í trausti þess, af því ég vil frekar líta til ráðherranna með trausti en vantrausti, í trausti þess að þeir vinni í samræmi við yfirlýsingar forsætisráðherra ætla ég að styðja það að þessi þingfrestun fari fram. Ég vænti þess að hv. ríkisstjórn rísi undir því trausti.