136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:25]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefði verið fróðlegt ef hv. þm. Pétur Blöndal hefði komið hér og sagt okkur fyrir hverju ríkisstjórnin ætlaði sérstaklega að beita sér fyrir í þessum góðu verkum sem hann var að telja upp. Hvaða virkjun er næst, hv. þingmaður? Hvar ætla menn að byrja að ná í orku? Ætla þeir að halda áfram að rífast um það í ríkisstjórninni? Að hvaða uppbyggingu ætla menn að stuðla á orkusviði?

Ætla menn að horfa á það að tekjurnar í sjávarútvegi verði óbreyttar eins og þær eru eða ætla þeir að leyfa meiri fiskveiði og tryggja að tekjur þjóðfélagsins dreifist og nýjar tekjur komi inn í þjóðfélagið eða eru sjálfstæðismenn enn þá jafnbjartsýnir og þeir voru fyrir ári síðan er þeir töldu þjóðfélagið standa svo vel að nú væri sérstök ástæða til að skera niður þorskveiðina og viðhalda því? Það þýðir ekkert að koma hér upp og tala í hring og koma ekki með eina einustu tillögu um hvernig taka eigi á vandanum.