136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr hvort ég hafi gert mér grein fyrir þessum atriðum varðandi sveitarfélögin. Það er nú býsna skemmtilegt að nú spyr hann eins og kennari þar sem hann spyr eingöngu um það sem hann veit svarið við vegna þess að við vorum báðir á fundi þar sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra einmitt þessarar spurningar. Ég vakti athygli á því að þær 1.400 milljónir sem áður höfðu farið til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem sérstök ráðstöfun væru ekki inni í frumvarpinu.

Jafnreyndur maður og hv. þm. Jón Bjarnason veit að viðgengist hefur í fjárlögum að þær fjárveitingar sem eru áætlaðar til eins árs í senn eru hreinsaðar út og síðan teknar upp aftur í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. í vinnslu fjárlaganefndar. Það var sú skýring sem ég fékk varðandi málið. Um er að ræða sérstaka fjárveitingu sem tekin er út úr frumvarpinu og verður að koma inn aftur með einhverjum hætti í fjárlaganefnd, í umfjöllun og samningum við sveitarfélögin eða með einhverjum aðgerðum sem snerta fjárhag sveitarfélaganna. Eins og ég kom að í ræðu minni treysti ég á að svo verði. Það er augljóst að fara þarf yfir stöðu sveitarfélaganna, það má öllum vera ljóst, það er búið að ræða um það í nokkuð langan tíma. Það þýðir ekki að sveitarfélögin geti komist hjá því að verða fyrir einhverjum áföllum vegna fjármálaástandsins og lánakjara. Mörg þeirra, sérstaklega stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, hafa staðið í gríðarlegum framkvæmdum. Eitthvað af því getur vel verið að dragist saman en það verður okkar hlutverk að verja þau en ekkert síður minni sveitarfélögin og þau sem jöfnunarsjóður hefur haldið vörð um. Um það fáum við væntanlega að véla í fjárlaganefndinni og komast að ásættanlegri niðurstöðu. Mér er því fullkunnugt um það og hef þegar vakið athygli á því. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga það fram hér í ræðustóli.