136. löggjafarþing — 9. fundur,  8. okt. 2008.

almannatryggingar.

31. mál
[15:17]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að taka undir þau sjónarmið og rök sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson færði hér fram fyrir því frumvarpi sem hér er til umræðu. Það liggur fyrir að meginatriði þessa frumvarps miða að því að bæta verulega hag ellilífeyrisþega og öryrkja með því að hækka frítekjumark lífeyrissjóðsgreiðslna þannig að fólk eigi þess kost að afla sér tekna án þess að verða fyrir skerðingum.

Við frjálslynd höfum lagt áherslu á að það skipti gríðarlegu máli að við tökum ekki hvatann frá fólkinu til þess að afla sér tekna, þ.e. þegar um það getur verið að ræða að það skipti ekki máli fyrir einstakling hvort hann vinnur fyrir tekjum eða gerir það ekki vegna þess að varðandi þær tekjur sem hann vinur sér fyrir þá komi til frádráttar aðrir liðir sem valda því að viðkomandi fær þá raunverulega ekki betri kjör. Það skiptir gríðarlegu máli, ekki síst eins og árar í okkar samfélagi, að allar vinnandi hendur geti og hafi hvata til þess að vinna. Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur þegar komið fram mjög alvarleg og víðtæk kjararýrnun í þjóðfélaginu sem bitnar og mun bitna því miður með mjög alvarlegum hætti á þeim sem síst skyldi. Það skiptir máli að reyna eftir fremsta megni að greiða fyrir og bæta hag þeirra sem undir þær skilgreiningar heyra þannig að öryrkjar og ellilífeyrisþegar, svo og láglaunafólk geti notið sem bestra kjara miðað við þær aðstæður sem um er að ræða.

Frumvarp okkar flutningsmanna að þessum breytingum á lögum um almannatryggingar miðar að því að bæta að því leyti sem þar greinir hagsmuni ellilífeyrisþega og öryrkja með því að hækka frítekjumark svo sem var eitt af því sem við lögðum áherslu á fyrir síðustu kosningar. Þetta er því liður í því að koma því að sem við teljum nauðsynlegt, að gefa fólki kost á því að afla sér tekna án þess að verða fyrir skerðingu, njóta þess sem það getur notið vegna þess að það er tvímælalaust hagsmunamál þjóðfélagsins að sem flestar vinnandi hendur geti komið að verki vegna þess að með þeim hætti, þó að ekki séu skertar bætur til viðkomandi, koma hlutir til samfélagsins á þann hátt að eyðslufé eykst, möguleikarnir til þess að leggja eitthvað sig fyrir koma fram meðal annars með því að greiddur er virðisaukaskattur og það þarf ekki eins mikið að koma úr opinberum sjóðum að öðru leyti.

Ég lít því svo á að frumvarpið sem við þrír þingmenn Frjálslynda flokksins flytjum hér verði til þess að gefa fólki, þeim hópum sem hér er fjallað um, betri lífskjör auk þess sem það dregur úr útgjöldum þjóðfélagsins þegar allt verður skoðað.