136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Sá listi sem við höfðum í höndunum svo seint sem kl. 10, þar sem við sátum á þingflokksfundi og undirbjuggum okkur undir daginn, var þannig að á honum var ekki nafn forsætisráðherra. Ég hringdi á skrifstofu Alþingis líklega 5 mínútur yfir 10 og bað um að því yrði komið til forseta að ég mundi gera athugasemdir við þetta í upphafi fundar, fyrst og fremst þær athugasemdir að ég teldi þá betra að sleppa því að taka þessi mál hér upp heldur en gera það við þessar aðstæður.

Það sem ég er einfaldlega að leggja áherslu á er þetta: Það er skoðun mín að ef við ætlum að ræða á annað borð á Alþingi þau alvarlegu mál og þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi í þjóðfélagi okkar, þá eigum við að gera það í yfirvegaðri og málefnalegri umræðu þar sem sæmilega rúmur ræðutími gefst, annars sé betra að sleppa því. Mér finnst það nánast lítilsvirðing við þjóðina ef Alþingi getur ekki gefið sér nema eina og tvær mínútur til þess að eiga skoðanaskipti um þetta núna. Ég sé t.d. ekki ástæðu til þess að reyna að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í ástandið í óundirbúnum fyrirspurnatíma daginn eftir að stærsti banki þjóðarinnar kemst í þrot og hafa til þess tvær og eina mínútu.