136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er dálítið erfitt að ræða venjuleg þingmál á þessum degi. Hins vegar þurfa Íslendingar allir að ganga til daglegra verka í ljósi þeirra voveiflegu atburða sem hafa gerst í efnahagslífinu undanfarna daga. Þess vegna tel ég rétt að við göngum til okkar verka eins og aðrir Íslendingar.

Oft hefur það brunnið við þegar Þjóðhagsstofnun starfaði að menn efuðust um heilindi hennar og meðal annars sagði hv. þingmaður sjálfur 13. desember 2001, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að ég sé ekki alveg tilefni til þessarar bjartsýni. Það er athyglisvert að nú rembast allir við, jafnvel þeir hinir sömu aðilar og maður hélt að hefðu eitthvað lært, og væru varkárir í því að elta fyrirmæli stjórnvalda um góðæri og gleðitíð, rembast við að finna sér einhverjar ástæður til þess að vera bjartsýnir þrátt fyrir hreyfingar milli mánaða aftur og aftur sem eru miklu lakari en þeirra eigin spár gerðu ráð fyrir. Þetta eru verri útkomur í verðbólgumælingunum en bæði Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun gerðu ráð fyrir. Það er staðreynd, herra forseti.“

Í ræðu sem hv. þingmaður hélt 30. maí 1991 kemur sami tónninn upp, að Þjóðhagsstofnun vinni skýrslu samkvæmt beiðni ríkisstjórnarinnar. Þetta er sú gagnrýni sem var í gangi, að Þjóðhagsstofnun af því að hún heyrði undir ríkisvaldið með fjárveitingar og annað slíkt, dansaði eftir pípu ríkisvaldsins og var mikið gagnrýnd. Þetta er meðal annars það sem ég tel að sé ástæðan fyrir því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Ég greiddi á sínum tíma atkvæði gegn því, minnir mig, vegna þess að kostnaður átti að aukast við að leggja stofnunina niður en það er önnur saga.