136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

lög um fjármálafyrirtæki.

[13:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel að rík ástæða geti verið til að fara yfir allt regluverkið eftir að þetta er yfirgengið. Auðvitað þarf að draga ýmsan lærdóm af þessum málum. Ýmislegt hefur farið úrskeiðis en ég tel hins vegar mikilvægt að í þeirri endurskoðun fórnum við ekki þeim meginkostum sem felast í EES-samstarfinu, sem felst í fjórfrelsinu. Við eigum ekki að grafa undan þeim rétti fyrirtækja og fólks að fá að starfa í öðrum Evrópuríkjum. Það er grundvallaratriði sem ég tel að við eigum að verja, það er grundvallarfrelsi þegnanna að hafa þennan möguleika. Hins vegar er ljóst að varðandi stofnun útibúa innlendra fyrirtækja á erlendri grundu — það má eflaust endurskoða það og skoða þau mál. Það gengur ekki að starfsemi erlendra banka sem lenda í þroti lendi á íslenskum skattgreiðendum með þeim hætti sem líkur eru á að gerist í þessu máli.

Það að skoða regluverkið lýtur að háttsemi fjármálafyrirtækja og kallar líka á það að við skoðum málið í heild sinni, og við þurfum að draga marga lærdóma af þessu máli. Við þurfum að fara yfir það hvað fór úrskeiðis. Við þurfum að skoða þetta heildstætt. Ég vil nota tækifærið og hvetja til þess að þingið hafi einhvers konar aðkomu að þeirri vinnu. Við höfum mörg í þessum sal talað okkur hás fyrir því að þingið hafi einhvers konar úrræði til að stunda öflugt eftirlit eða einhvers konar rannsóknir. Það er eitt af hlutverkum þjóðþings að hafa þau úrræði. Þau hefur hingað til vantað í löggjöf okkar og nú gefst ágætistækifæri til að stíga fyrstu skrefin í því að eftirlit þingsins verði eflt til muna.

Að lokum minni ég á að þó að EES-samningurinn bindi okkur talsvert niður hvað þetta varðar þá er svigrúm í þeim samningi. Við sjáum t.d. að löggjöf ríkjanna er mismunandi hvað varðar fyrirkomulag um að greiða inn í svokallaðan tryggingarsjóð innstæðueigenda þannig að ekki hafa öll EES-ríkin sömu reglu hvað það varðar. Nýtum okkur það svigrúm svo að hagsmunum almennings sé betur borgið en augljóslega hefur verið í þessu máli.