136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

samvinnu- og efnahagsráð Íslands.

5. mál
[15:09]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir í meginatriðum öll þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni hér áðan nema þegar hann talaði um að það væri misskilningur að Evrópusambandið væri síðri kostur en verið hefur fyrir Íslendinga. Ég tel það vera betri kost en verið hefur en það er hins vegar spurningin hvort það er nógu góður kostur til þess að við getum átt samleið með Evrópusambandinu. Það er viðfangsefni sem eðlilegt er að ræða og á öðrum vettvangi en hér.

Ég vil taka heils hugar undir það sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði um atferli og atlögu forsætisráðherra Breta Gordons Browns gagnvart okkur Íslendingum. Sumir samfylkingarmenn, þar á meðal ráðherra, hafa talið sig eiga samleið með breska verkamannaflokknum. Það hefur sjálfsagt aldrei verið gerð eins fólskuleg og hatrömm árás af nokkrum breskum ráðherra á íslenska hagsmuni og forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, gerði á dögunum ásamt ríkisstjórn breska verkamannaflokksins að beita hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi og íslenskum hagsmunum. Hér er um svo fáheyrða hluti að ræða að mér finnast viðbrögð íslenskra stjórnvalda með ólíkindum, að ekki skyldi hafa verið brugðist við með allsherjarmótmælum. Hvað getur þjóð eins og Ísland gert þegar um slíkt er að ræða?

Ég átta mig á því að þegar þjóð á í erfiðleikum þarf hún að fara með gát. En það má hins vegar aldrei bregðast við að leggjast á hnén og gefast upp fyrir ofbeldinu. Þarna var ekki um neitt annað að ræða en ofbeldi af hálfu þjóðar sem við höfum talið til vinaþjóðar okkar. Það er þjóð sem við störfum með í Atlantshafsbandalaginu og höfum starfað með þar í langan tíma. Það er þjóð sem við lögðum ríkulegan styrk til í síðari heimsstyrjöld. Á hvaða vettvangi hefðum við átt að taka upp málin og gera kröfu til þess að strax yrði brugðist við? Að sjálfsögðu áttum við að gera það á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Við áttum að gera kröfu til þess að þegar yrði brugðist við. Það er með ólíkindum að bandalagsþjóð okkar í Atlantshafsbandalaginu skuli lýsa bandalagsþjóð sinni sem hryðjuverkaþjóð. Ég fæ ekki alveg séð hvernig það getur samrýmst Atlantshafssáttmálanum.

Í hverju voru hryðjuverkin fólgin sem um var að ræða? Hvað réttlætti setningu þessara laga og viðbragða af hálfu ríkisstjórnar Bretlands? Ég fæ ekki séð og mér hefur ekki verið sýnt fram á að nokkur rök eða sjónarmið geti réttlætt þessa aðgerð. Jafnvel þó að eitthvert fjárstreymi hafi verið frá landinu gat það ekki réttlætt þá ofsafengnu aðferð sem Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, beitti Íslendinga í þessu tilviki.

Ég tel að íslenska ríkisstjórnin hefði sama dag á sömu mínútu og Bretar beittu Ísland þessu harðræði átt að gera kröfu til að fundur yrði haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem yrði fjallað um málið — á þeim stað þar sem öll íslenska utanríkisþjónustan vinnur nú að kjöri Íslands í ráðið, því miður. Fólki væri nær að vinna að ýmsum ímyndarstörfum til hagræðis fyrir Ísland annars staðar en það er annað mál. Við hefðum átt að gera kröfu til þess að fastaráð Atlantshafsbandalagsins kæmi saman þegar í stað og að kallað yrði saman til fundar þeirra ríkja sem mynda Evrópska efnahagssvæðið.

Á öllum vettvangi þar sem við eigum samstarf og fjölþjóðleg tengsl við Bretaveldi hefðum við átt að grípa til varna og andmæla og gera kröfur til þess að Bretar sýndu þessari þjóð einu sinni mannasiði sem þeir hafa ekki gert og ítrekað troðið henni um tær, farið með hervaldi á hendur íslenskri þjóð. Við brugðumst við á sínum tíma og slitum stjórnmálasambandi við Breta. Ég tel að svo fremi sem Bretar gera ekki bragarbót, biðjist afsökunar og greiði skaðabætur, komi slíkt til greina.