136. löggjafarþing — 13. fundur,  15. okt. 2008.

staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:47]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Okkur Íslendingum hefur verið sagt að upp á síðkastið hafi alþjóðafjármálakerfið fylgst með íslensku efnahagskerfi eins og kanarífugli í námu. Á daginn kom, hæstv. forseti, að íslenska efnahagskerfið var jafnviðkvæmt og kanarífugl. Eiturgufurnar í námu heimskapítalismans, þar sem gullgrafararnir athafna sig, reyndust svo eitraðar að kanarífuglinn komst ekki undan þeim.

Úr munni ræðumanna kemur spurningin: Hvernig gat þetta gerst? Við höfum síðustu daga hlustað af athygli á hæstv. forsætisráðherra og oft hefur mér fundist hann hafa tilhneigingu til að einfalda vandann, jafnvel afneita ákveðnum þáttum hans. Hæstv. ráðherra hefur ekki getað sannfært þjóðina um að allt sé gert til að bregðast við vandanum. Ekki hefur almannavarnaráð enn verið kallað saman.

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni hér áðan upplýsti hæstv. forsætisráðherra að málin væru í höndum ráðherrateymis fjögurra ráðherra og stýrihóps ráðuneytisstarfsmanna og tiltekinna stofnana. Ég verð að segja að mér er ekki mikið rórra. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum gert kröfu um að Ríkisendurskoðun fái skilgreint hlutverk sem endurskoðunar- og eftirlitsaðili við ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem koma í hendur ríkisins með yfirtöku bankanna. Gríðarlegir almannahagsmunir eru í húfi og útilokað annað en að opinbert eftirlit og endurskoðun komi til.

Hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað hafa ekki látið í ljósi neinar skoðanir á kröfunni en henni er ekki beint til þeirra heldur til forsætisnefndar Alþingis. Því nú er nauðsynlegt að skilja á milli þings og ríkisstjórnar og að hér verði á ný þingbundin stjórn en ekki ríkisstjórnarbundið þing. Talsvert vantar upp á, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin geri allt sem í hennar valdi stendur. Ég furða mig til að mynda á því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra sagði ekkert um tilraunir ríkisstjórnarinnar til að leita aðstoðar ríkisstjórna nágrannaríkja okkar. Mér er óskiljanlegt hvers vegna enn hafa ekki verið send formleg erindi til ríkisstjórna Norðurlandanna um aðstoð. Þær hljóta að bíða eftir formlegri beiðni og lánalínurnar sem voru virkjaðar í gær eða dag eru ekki hluti formlegs erindis til ríkisstjórnanna. Í hugann koma líka EFTA-þjóðirnar, Sviss og Liechtenstein, og vinaþjóð í vestri, Kanada. Ég spyr: Eru engin formleg samtöl í gangi við ríkisstjórnir þessara þjóða?

Hæstv. forseti. Tími ofurlaunanna er liðinn, sagði hæstv. viðskiptaráðherra áðan í ræðu sinni og ég krefst þess að fá að sjá það í vinnu við fjárlagafrumvarp fyrir 2009. Krafa þjóðarinnar er sú að stjórnmálamenn taki sig á og axli hluta byrðanna. Það getum við gert með því að jafna launakjör þeirra sem sitja í salnum. Ef tími ofurlauna er liðinn, afnemum þá ofurlaun í opinbera kerfinu líka og byrjum á eftirlaunaskandalnum. Setjum alla þingmenn og aðra sem gegna toppstöðum hjá hinu opinbera á sömu laun, einfalt þingfararkaup væri sanngjarnt. Viðskiptaráðherra undirstrikar að nú þurfi að endurvinna traust þjóðarinnar og gæti aðgerð af þessu tagi verið liður í því að endurvinna traust á þeim sem með valdið fara.

Hæstv. forseti. Nú er nauðsynlegt að finna grundvöll að sátt við íslensku þjóðina, leggja öll spil á borðið og opna aðgang að öllum upplýsingum um það sem gerst hefur. Þjóðin hefur ekki fengið skýr svör um það hjá ríkisstjórninni hvernig þetta hafi getað gerst eða hvaða aðgerðir ríkisstjórnin sér til lausnar á vandanum.

Hæstv. forseti. Við okkur blasir hrun þess þjóðfélagsmunsturs sem byggt hefur verið á skammsýni og taumleysi. Tímabært er að leiða önnur gildi til öndvegis svo sem hófsemi og nægjusemi og huga að samfélagslegum gildum og siðferðislegum. Ég sé ekki að þessari ríkisstjórn sé treystandi til þess. Fulltrúar hennar og stuðningsmenn á Alþingi virðast einungis kalla á meira af því sama. Við heyrum vanhugsað ákall stjórnarþingmanna um að nauðsynlegt sé að ýta til hliðar lögum um mat á umhverfisáhrifum svo virkja megi fyrir stóriðju án þess að leggja mat á skaðann sem af hlýst. (Forseti hringir.) Ákall um nýtt fix, ekki lausn.