136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[12:22]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af hv. þm. Jóni Magnússyni. Honum er svo (Gripið fram í: Það er ágætt að einhver hefur það.) illa órótt. Það er af sem áður var þegar hv. þingmaður stýrði með glæsibrag Sambandi ungra sjálfstæðismanna sem forustumaður þess. (JM: Það var öðruvísi Sjálfstæðisflokkur.) Það hefur ekkert breyst í Sjálfstæðisflokknum. Það hefur hins vegar kannski eitthvað breyst í hjartalagi þingmannsins (JM: Mildari ...) og það getur verið af hinu góða og gott er (JM: og betri.) að vera ekki fastur fyrir í öllum kreddum. En hjartalagið er það sama. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að þetta er ekki í samræmi við stíl eða stefnu þess hjartalags sem býr í hinum ágæta hv. þm. Jóni Magnússyni.

Það er mikið alvörumál að segja að atvinnugrein sem er burðargrein á Íslandi eigi ekki fyrir skuldum. Ætli það þurfi ekki að færa meiri rök fyrir því en í einni setningu eða einni tilvitnun í einhverja greiningardeild einhvers banka? Þetta er ekki boðlegt. Þetta er ekki boðlegt því að við erfiðar aðstæður eiga menn að hafa rænu á því og vit til þess að halda sjó, taka pusið í hnakkann ef ekki vill betur og komast í gegnum skaflana án þess að hræða fólk. Það á ekki að vera hlutverk alþingismanna að hræða Íslendinga.

Mjög fáir útgerðarmenn fóru á hlutabréfamarkað, mjög lítið hlutfall. Meginlína þeirra hefur verið sú að reka starfsemina (Forseti hringir.) til hagsbóta fyrir land og þjóð af metnaði og hugsjón. Samt sæta þeir einelti og samt er hv. þingmaður að bauna á þá sem kvótagreifa (Forseti hringir.) og sægreifa. Þetta er skammarlegt.