136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

niðurlagning úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

94. mál
[14:15]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um niðurlagningu úrskurðarnefnda á sviði siglingamála en frumvarp sama efnis var lagt fram á 133. löggjafarþingi en var eigi útrætt.

Með frumvarpinu er lagt til að tvær úrskurðarnefndir á sviði siglingamála verði lagðar niður. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 13. gr. laga, nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, og hins vegar á 24 gr. laga, nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Helsta markmiðið með breytingunni er að færa kæruferli vegna ákvarðana Siglingastofnunar Íslands til samgönguráðuneytisins í samræmi við almenna reglu stjórnsýslulaga. Með því verða tvær úrskurðarnefndir sem hafa verið skipaðar en ekki haft verkefni á undanförnum árum lagðar niður. Það er annars vegar úrskurðarnefnd siglingamála og hins vegar farbannsnefnd.

Virðulegi forseti. Með þessu er lögð áhersla á einföldun stjórnsýslu á sviði ráðuneytisins. Þetta er hluti af framkvæmd þeirrar stefnu. Meginreglan er sú að ráðherra úrskurðar um ágreiningsefni lægra setts stjórnvalds er undir hann heyrir. Reynslan hefur sýnt að það fyrirkomulag að hafa starfandi sérstakar úrskurðarnefndir er heppilegt á sviðum þar sem mikill fjöldi mála er til úrlausnar. Því er ekki til að dreifa varðandi úrskurðarnefnd siglingamála eða farbannsnefnd og þykir því ekki rétt að starfrækja slíkar nefndir.

Þá þykir eðlilegra og í samræmi við almenna þróun innan stjórnsýslunnar að ráðherra og ráðuneyti axli sjálf ábyrgð á úrlausn ágreiningsefna á þessu sérsviði ef þau kunna að koma upp og byggi upp frekari þekkingu innan ráðuneytisins á þeirri framkvæmd.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta frekari orð heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.