136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

Háskóli á Ísafirði.

46. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Háskóla á Ísafirði, 46. mál á þskj. 46, sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Magnúsi Stefánssyni og Jóni Bjarnasyni. Frumvarp þetta er endurflutningur frá síðasta þingvetri en málið flutti ég þá ásamt þingmönnunum Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Jóni Magnússyni.

Frumvarpið er í sex köflum, samtals 19 greinar. Í I. kafla er gerð grein fyrir hlutverki skólans og samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er Háskólinn á Ísafirði vísindaleg mennta- og rannsóknastofnun sem veitir stúdentum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til að gegna ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu. Háskólanum er heimilt að veita framhaldsmenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um kennara og stúdenta og kveðið á um að kennarar við skólann séu prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar. Þá er einnig kveðið á um að rektor ráði prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara og að skipuð sé dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs til að dæma um hæfi umsækjenda um störf við skólann.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um stjórnskipulag hans og kveðið á um að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum, og að í háskólaráði sitji rektor, sem jafnframt er forseti þess, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi stúdenta og einn fulltrúi skipaður af menntamálaráðherra.

Þá er í þessum kafla mælt fyrir um að menntamálaráðherra skipi rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs og að rektor sé yfirmaður stjórnsýslu háskólans. Háskólaráð ákvarðar deildarskipan háskólans og afmarkar aðrar stjórnunareiningar innan hans. Fyrir hverja deild háskólans eða skilgreinda námsbraut skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talda starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við.

Í IV. kafla frumvarpsins eru ákvæði sem varða kennslu, framkvæmd prófa og agaviðurlög og eru hefðbundin miðað við ákvæði annarra háskóla á vegum ríkisins.

Í V. kafla er fjallað um rannsóknir og bókasöfn og kveðið á um að skólanum sé heimilt að starfrækja rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra og eiga aðild að, með samþykki menntamálaráðherra, rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að á hverjum tíma.

Þá er kveðið á um að við háskólann skuli vera rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðasviðum skólans og að skólanum sé heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði háskólans, t.d. um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Þá er að finna í þessum kafla ákvæði sem veitir háskólaráði rétt til að veita doktorsnafnbót.

Í VI. kafla eru ákvæði um gildistöku og reglugerð með hefðbundnum hætti. Gert er ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi þegar í stað og í ákvæði til bráðabirgða er menntamálaráðherra falið að skipa fimm manna háskólaráð sem tekur til starfa þegar í stað til þess að undirbúa stofnun skólans. Miðað er við að kennsla hefjist við skólann eigi síðar en á haustönn 2009 og þá verði skipað nýtt háskólaráð samkvæmt ákvæðum 5. gr. frumvarpsins.

Þetta er megininntakið í lagafrumvarpinu, virðulegi forseti. Það er gert ráð fyrir því að skólinn verði hefðbundinn ríkisháskóli og við hann séu ekki innheimt skólagjöld með öðrum hætti en gildir um slíka skóla. Auðvitað má hugsa sér annað form, t.d. kemur vel til greina að skólinn sé sjálfseignarstofnun eða hugsanlega hlutafélag. Það eru allt spurningar um form sem engin ástæða er til að útiloka að geti komið til greina ef samstarfsaðilar eru fyrir hendi sem gera þá leið mögulega. Við flutningsmenn leggjum til að skólinn verði hefðbundinn ríkisháskóli og er það á valdi ríkisins og Alþingis ef vilji er til að hrinda því í framkvæmd með skjótum hætti, sem full þörf er á.

Flutningsmenn telja að farsælast sé að stjórna uppbyggingu á háskólanámi á Vestfjörðum með sjálfstæðri stofnun með fjárveitingu á fjárlögum eins og aðrir háskólar búa við. Þá munu forustumenn skólans vinna að uppbyggingu hans og móta námsframboð á þeim forsendum sem gagnast best þeim sem skólanum er einkum ætlað að þjóna. Ég vek athygli á því að fyrir liggur að töluverður fjöldi nemenda er til staðar. Áætlað er að um 150–200 manns á Vestfjörðum stundi nám við háskóla og þá fyrst og fremst í fjarnámi.

Bent er á reynslu af uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Í upphafi var lagt til að hafin yrði kennsla á háskólastigi á Akureyri í tilteknum greinum á vegum Háskóla Íslands en frá því var horfið og stofnaður sjálfstæður háskóli fyrir norðan. Væntanlega efast fáir um það núna að það hafi reynst heillaráð og að háskólanám fyrir norðan væri allt með öðrum og minni hætti nú ef það hefði verið „annexía“ frá háskóla héðan að sunnan og uppbyggingu þess hefði verið stjórnað af fjarlægum stjórnendum í öðrum landshluta.

Miklar framfarir á síðasta áratug gera það kleift að hinn nýi háskóli geti átt samstarf við aðra háskóla og sótt til þeirra þekkingu og námsframboð. Er gert ráð fyrir að þeir möguleikar verði nýttir sem mest í þágu háskólanáms á Vestfjörðum. Rökin fyrir sérstökum háskóla á Vestfjörðum eru enn þau sömu og sett voru fram þegar stofnaður var Háskólinn á Akureyri.

Birgir Ísleifur Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 12. desember 1987 og sagði þá, með leyfi forseta:

„Ég gat þess áðan að Háskóli á Akureyri hefur verið mikið áhugaefni forustumanna í byggðum norðan lands. Það er mjög skiljanlegt, ég hygg reyndar að ekkert sé raunhæfara í byggðamálum en að flytja menntun út í byggðir landsins. Mér er það í minni að menntamálaráðherra Svía var hér í heimsókn á sl. sumri og við ræddum um þróun skólamála, ekki síst þróun skólamála í Svíþjóð. Hann sagði mér að ríkisstjórnir í Svíþjóð hefðu gert mjög margt til þess að halda uppi byggðastefnu. Þær hefðu látið mikið fé af hendi rakna í ýmiss konar félagsleg verkefni og til ýmiss konar atvinnufyrirtækja en í rauninni hefði ekki nein stefna reynst betri en sú þegar Svíar fóru að flytja sitt æðra nám út í hinar dreifðu byggðir landsins.“

Ég legg áherslu á lokaorð framsöguræðu þáverandi menntamálaráðherra, Birgis Ísleifs Gunnarssonar. Sömu sjónarmið komu síðar fram hjá Ólafi G. Einarssyni, þáverandi menntamálaráðherra, 26. febrúar 1992 þegar hann mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um Háskólann á Akureyri.

Hann sagði þá, með leyfi forseta:

„Ég vil einnig minna á að starfsemi Háskólans á Akureyri er mikilvægur þáttur í byggðastefnu, þ.e. að fólk í hinum dreifðu byggðum landsins fái aukna möguleika á að notfæra sér þá menningu og þau lífsgæði sem felast í þróttmikilli háskólamenntun og vísindastarfsemi.“

Mikill áhugi er á háskólanámi á Vestfjörðum. Milli 150 og 200 manns stunda þar nám í fjarnámi eins og fyrr kom fram. Enginn háskóli hefur starfsemi þar, aðeins háskólasetur. Þó að háskólasetur sé að mörgu leyti merkileg stofnun og ýti áfram uppbyggingu á háskólanámi er það ekki háskóli, getur ekki orðið það og getur ekki tekið að sér slíkt hlutverk vegna þess að um er að ræða þjónustuaðila fyrir aðra háskóla. Þess vegna þarf að stíga skrefið til fulls. Ef aðsókn að nýjum háskóla verður svipuð og ætla má út frá þeim fjölda sem stundar fjarnám á Vestfjörðum munu nemendur við nýjan háskóla í upphafi verða margfalt fleiri en þeir sem hófu nám við Háskólann á Akureyri þegar kennsla hófst þar en þeir munu hafa verið innan við 40. Allar ástæður eru til að ætla að nýr háskóli á Vestfjörðum á næsta ári mundi þegar í upphafi hafa margfaldan þann fjölda sem menn lögðu af stað með við stofnun Háskólans á Akureyri. Þó að fjöldinn væri ekki mikill þar á þeim tíma tókst vel til og Háskólinn á Akureyri er orðinn mjög öflugur háskóli sem hefur skilað því inn í samfélagið sem honum var ætlað að gera, ekki bara til þjóðfélagsins í heild, sem hann að sjálfsögðu hefur lagt sitt af mörkum til að efla, heldur hefur hann styrkt samfélagið sem hann starfar í.

Í þessu sambandi minni ég á nýlega skýrslu sem kom út á vegum OECD þar sem einmitt er bent á að eitt öflugasta tæki til þess að styrkja byggð í dreifðum byggðum einstakra landa er í gegnum menntastofnanir og sérstaklega háskóla. Það helgast af því að háskólinn er auðvitað sjálfur stofnun eða atvinnufyrirtæki sem hefur starfsfólk og nemendur og þar er starfsemi, en fyrst og fremst vegna þess að út úr háskólunum kemur fólk sem sest að á þessum stöðum í meira mæli en væri ef það væri gengið til mennta annars staðar, tekur til starfa í samfélaginu og beitir sér hvert á sínum vettvangi hvort sem það er hjá atvinnufyrirtæki, hinu opinbera, í félagasamtökum eða stjórnmálum. Það hefur þekkingu á ýmsum viðfangsefnum þjóðfélagsins sem við er að glíma og getur hjálpað atvinnufyrirtækjum og öðrum í samkeppni í þjóðfélaginu um fólk, tekjur, verkefni, tækifæri og annað og leiðir til þess að svæði eflist vegna þess að þekkingin hefur styrkst. Fleiri verða á svæðinu með meiri þekkingu og meiri getu til þess að drífa hlutina áfram og í því felst helsti styrkur og ávinningur viðkomandi svæðis. En fyrst og fremst legg ég áherslu á ávinninginn fyrir þjóðfélagið í heild því að aukið menntastig þýðir aukin landsframleiðsla, auknar tekjur og meiri velsæld í þjóðfélaginu — og mætti ætla við þær aðstæður sem við búum við þessa mánuðina að menn séu sammála um að ekki veiti af.

Með fjölgun skóla hefur þeim fjölgað sem gengið hafa menntaveginn. Það er þróun sem menn sáu fyrst í framhaldsskólunum eða kannski öllu heldur fyrst í iðnskólunum sem voru víða um land og áttu sitt blómaskeið á sínum tíma. Síðan komu menntaskólarnir og mikil togstreita var um það fyrir 30 árum eða svo að fá nægilegan pólitískan stuðning til að stofna framhaldsskóla í ýmsum byggðarlögum landsins, t.d. á Ísafirði. Að baki stofnunar Menntaskólans á Ísafirði var margra ára barátta nokkurra alþingismanna sem að lokum skilaði því að skólinn var stofnaður því að þeir skólar sem fyrir voru óttuðust að þetta hefði áhrif á hag þeirra. Þannig eru hlutirnir og þess vegna var þessi togstreita á sínum tíma.

Við sjáum að því víðar sem við förum með framhaldsskólana styrkjast viðkomandi byggðarlög og landsvæði, sem styrkir svo þjóðina í heild, af því að stærri hluti af hverjum árgangi menntar sig meira en ella væri. Breytingar sem sem orðið hafa gera það auðveldara að stofna framhaldsskóla með færri nemendum en var fyrir 30–40 árum. Þess vegna er gerlegt að stofna framhaldsskóla í Borgarnesi, á Snæfellsnesi og Ólafsfirði og víðar. Ég hygg að það sé nokkuð samdóma álit þingmanna í þeim kjördæmum þar sem skólar hafa verið settir á fót að það hafi verið til góðs. Ég man ekki eftir dæmi um að menn haldi því fram að það hafi leitt til verri stöðu að stofna framhaldsskóla á tilteknum stað.

Sama þróun á sér stað með háskólana. Þeir eru að færast út um landið rétt eins og framhaldsskólarnir áður. Þeir munu skila jákvæðum áhrifum alveg eins og framhaldsskólarnir gerðu. Það er deginum ljósara að það er ávinningur fyrir þjóðina eða þjóðarbúið í heild að háskólar eru á Bifröst, Hvanneyri, Hólum og Akureyri. Það er líka ávinningur fyrir viðkomandi byggðarlög eða landsvæði sem njóta í ríkara mæli en önnur góðs af starfseminni. Þannig mun þetta halda áfram. Það mun koma háskóli á Suðurnesjum og reyndar er búið að gefa því vel undir fótinn af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma honum þar á legg. Það mun koma háskóli á Selfossi, ég er alveg sannfærður um það. Það mun verða háskóli á Egilsstöðum innan skamms og hér er lagt til að það verði háskóli á Ísafirði. Allt þetta mun koma, vil ég leyfa mér að halda fram, og verða til góðs fyrir þjóðina og einstök svæði.

Ég flutti þingsályktunartillögu um stofnun háskóla á Ísafirði fyrir fimm árum ásamt þremur öðrum þingmönnum, Gunnari Birgissyni, Einari Oddi Kristjánssyni og Magnúsi Stefánssyni. Þá létum við taka saman fyrir okkur upplýsingar. Þar var m.a. dregið fram, til að sýna áhrifin af skóla á tilteknu landsvæði eins og lagt er til í þessu frumvarpi, að 400 stúdenta skóli sem hefði þar af 300 í staðnámi, sem kallað er, mundi leiða til fjölgunar íbúa um 900. Það munar dálítið um það. Fimm árum síðar höfum við hátt í þann fjölda af nemendum á svæðinu í fjarnámi. Ég hugsa að við hefðum kannski ekki þorað að halda því fram þá að fjölgunin yrði svo hröð sem reyndin hefur orðið. Svo bætast við nemendur af svæðinu sem eru í staðnámi í öðrum háskólum.

Fjórðungssamband Vestfirðinga ályktaði um stofnun Háskóla á Ísafirði á þingi sínu í byrjun september á síðasta ári og hvatti til þess að skólinn yrði stofnaður og tæki til starfa á þessu ári. Þá hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýst yfir stuðningi sínum við stofnun Háskóla á Ísafirði og því til viðbótar liggur fyrir stuðningur við tillöguna frá því fyrir fjórum árum frá bæjarstjórninni í Bolungarvík og ýmsum hagsmunasamtökum á svæðinu og reyndar frá Menntaskólanum á Ísafirði, sem ég vil sérstaklega geta um að lýsti strax yfir stuðningi við stofnun háskóla. Fræðslumiðstöð Vestfjarða er annað dæmi um samtök sem studdu málið fyrir fimm árum og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sú afstaða sé óbreytt.

Hins vegar hefur komið fram, eins og ég reyndar átti von á, og hvað skýrast í umsögnum um málið fyrir fimm árum andstaða annarra háskóla svo sem Kennaraháskólans og Háskólans í Reykjavík af þeirri einföldu ástæðu að þeir eiga hagsmuna að gæta. Þeir óttast um hagsmuni sína verði skólinn að veruleika og leggjast því gegn málinu. Ég tel það vera skammsýni, ég tel að menn eigi að draga lærdóm af reynslunni á Akureyri og að þessir háskólar eigi að leggjast á sveif með okkur flutningsmönnum, styðja frumvarpið og vinna að því að stofna háskóla á Ísafirði.

Virðulegi forseti. Það er hægt að hugsa sér ýmsar aðrar útfærslur á stofnun háskóla á Ísafirði en frumvarpið gerir ráð fyrir, svo sem sjálfseignarstofnun og jafnvel er hugsanlegt að sjá fyrir sér eina háskólastofnun með starfsemi á nokkrum stöðum á landinu en þá að því tilskildu að sjálfstæði einstakra starfsstöðva sé fyrir hendi bæði í stjórnun og fjárhagslega. Ég nefni dæmi um þetta fyrirkomulag erlendis frá þar sem háskólar eru oft safn af minni skólum eða stofnunum sem snúa bökum saman í eina. Þetta er sett fram til þess að láta vita af því að við þekkjum þessar hugmyndir og erum tilbúin til að ræða þær, en tillagan er alveg skýr og leiðin sem við veljum í frumvarpinu fer ekki á milli mála og það er afstaða okkar flutningsmanna að hún sé farsælust þegar horft er til lengri tíma.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þetta mál í framsögu, legg til að því verði vísað til 2. umr. og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.