136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga –– stýrivaxtahækkun.

[13:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mitt í öllu efnahagsóveðrinu berast okkur Íslendingum þær fréttir að færeyska landsstjórnin hafi ákveðið að leggja til við færeyska lögþingið að rétta okkur hjálparhönd á óvenjurausnarlegan hátt. Með því sýna Færeyingar okkur mikinn drengskap og veglyndi sem snertir streng í hjörtum allra Íslendinga. Færeyingar hafa áður sýnt í verki vináttu og frændrækni þegar við höfum þurft á að halda. Ég veit að fjölmargir hafa nú þegar brugðist við þessu vinarbragði og fréttum og sent færeyska lögþinginu og færeyskum fjölmiðlum persónulegar þakkir.

Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að í færeyska lögþinginu virðist vera alger pólitískur einhugur um að rétta Íslendingum hjálparhönd með lánveitingu á sérstökum vildarkjörum enda þótt málið hafi ekki enn þá fengið fullnaðarafgreiðslu í færeyska lögþinginu. Það sýnir svo ekki verður um villst að vinátta Færeyinga í okkar garð er fölskvalaus og einlæg og verðskuldar að við þökkum fyrir okkur með sóma og á afgerandi hátt. Ég álít að forseti Alþingis ætti að beita sér fyrir því á vettvangi forsætisnefndar eða ásamt formönnum þingflokka að Alþingi Íslendinga sendi færeyska lögþinginu, þegar það hefur fjallað um málið, og færeysku þjóðinni þakkir þings og þjóðar fyrir einstakan vinargreiða og stórlyndi.