136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

þakkir til Færeyinga –– stýrivaxtahækkun.

[13:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að sá vinarhugur og höfðingsskapur sem Færeyingar sýna okkur Íslendingum með þeim tillögum sem fram hafa komið hjá landsstjórninni snerta strengi djúpt í hjörtum okkur. Það er rétt að minnast þess að það er ekki í fyrsta sinn sem Færeyingar hafa sýnt slíkan höfðingsskap þegar á móti hefur blásið hjá okkur Íslendingum.

Sá sem hér stendur var búsettur vestur á Flateyri þegar snjóflóðið hræðilega féll á þorpið. Það er mér ógleymanlegt og í miklu minni hvernig Færeyingar, þegar á móti blés hjá þeim sjálfum og efnahagslíf þeirra var í lægð, stóðu fyrir mikilli söfnun sem síðan gerði það kleift að byggja stóran og mikinn leikskóla á Flateyri sem var stór hluti í því að byggja upp þorpið eftir það áfall sem þar hafði orðið. Þetta kemur því ekki á óvart. Ég tek undir að ég tel að það sé mjög vel við hæfi og beini því alveg sérstaklega til hæstv. forseta þingsins að komi til þess að færeyska þingið samþykki tillögu landsstjórnarinnar munum við koma þakklæti okkar með mjög skýrum hætti til færeysku þjóðarinnar. Tel ég að forseti muni leiða það starf vel og dyggilega.

Við höfum sjálf lært mikið af þessu. Hvað varðar samskipti okkar við Færeyinga höfum við sýnt að hér eru vinaþjóðir sem vinna vel saman. Það hefur verið gott samstarf t.d. um veiðar Færeyinga inni á lögsögu okkar. Við höfum veitt þeim ákveðinn forgang hvað það varðar og við eigum, nú sem endranær, að styðja öll okkar samskipti við Færeyinga. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hóf máls á þessu áðan og þess vegna vil ég nefna að við verðum báðir á EFTA-fundi á næstunni. Þar eigum við að beita okkur af mikilli hörku og festu við það að fylgja eftir hugmyndum Færeyinga um að þeir fái aðild að EFTA. (Forseti hringir.) Ég held að þetta eigi að hvetja okkur til þess að sýna stuðning (Forseti hringir.) við færeysku þjóðina hvað það varðar.