136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:52]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að batnandi mönnum er best að lifa og ég vil þakka fyrir það að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson viðurkennir að hann hafi í raun enga þekkingu á því sem hann ræddi í gær. Hann fullyrti þá að ákveðnir hlutir væru með ákveðnum hætti en dregur nú til baka að hann hafi nokkurn tíma vitað nokkuð um þetta.

Varðandi orðhengilshátt og það hvort umræðan hér snúist ekki um aðalatriði þá er það misskilningur hjá hv. þingmanni. Við þær aðstæður sem þjóðin býr við núna er aðalatriðið að ríkisstjórnin komi fram sem einn maður og telji kjark í þjóðina. Að hún tali ekki út og suður og skapi óvissu um það ástand sem er og þær aðgerðir sem fram undan eru og skapi öryggisleysi hjá öllum þeim fjölda sem nú á um sárt að binda í þeim efnahagshremmingum sem ríða yfir. Þann leik hefur Samfylkingin leikið allan tímann með ósannindavaðli og öðru sem er alls ekki sæmandi þeim sem sitja í ríkisstjórn. (Gripið fram í: Heyr.)