136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

nýsköpun og sprotafyrirtæki.

[11:04]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Já, ég veit að árum saman hefur verið unnið að því að efla nýsköpunarþróun í landinu. Samt sem áður er það nú oft þannig að þegar best gengur þá fer allur krafturinn í þær áttir og oft og tíðum verður minna úr því að klára verkefni sem að þessu snúa.

Mér þótti gaman að hæstv. ráðherra skyldi nefna hugmyndabanka. Ég talaði við konu á Melrakkasléttu í morgun sem hringdi í mig og sagði: Ég er með svo margar hugmyndir, hæstv. forsætisráðherra sagði að það ætti að stofna hugmyndabanka. Ég vil endilega koma hugmyndum mínum á framfæri, hvað á ég að gera? Það vilja allir leggja sitt af mörkum í þessum vanda og ég er mjög ánægð með að heyra að hæstv. ráðherra sinni þessum málum. Ég held nefnilega að varðandi það fólk sem við erum að missa núna af vinnumarkaðinum skipti tíminn svo gríðarlega miklu máli og að fólk hafi það á tilfinningunni að það geti gert eitthvað til að koma landinu aftur upp. Við vitum að mörg merkileg fyrirtæki, t.d. Íslensk erfðagreining, eru í miklum vanda núna. Það mun verða erfitt að reka þessi fyrirtæki á næstunni, við megum heldur ekki gleyma þeim fyrirtækjum sem eru enn þá til.