136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[13:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þeir skilji þetta alveg hjá leigubílastöðinni Hreyfli um útboðin hvað það getur þýtt fyrir atvinnurekstur þegar honum er þröngvað langt niður í útboðum. Ég held að þeir sem liggja á sjúkrahúsum og njóta þjónustu á öldrunarheimilum viti alveg hvað ég á við þegar um er að ræða hvort eigi að fara með heilbrigðisþjónustuna og félagslega þjónustu á útboðsmarkað, ég held að allir skilji hvað það getur þýtt.

Mér finnst ekki alveg nógu mikil reisn yfir þeim málflutningi að snúa sífellt út úr rökum okkar, mér finnst við hafa gert mjög vel grein fyrir þeim, mér finnst þau liggja mjög skýr fyrir — á nákvæmlega sama hátt og ég ætla að virða sjónarmið hv. þm. Ástu Möller, ég er bara mjög ósammála þeim. Ég tel að hún dragi taum markaðssinna og þeirra sem vilja fá þjónustuna í sínar hendur af hagsmunaástæðum, ég held það og hef fært rök fyrir hvers vegna. Við höfum lagt fram tillögu um að fram fari markviss skoðun á hvað þetta hafi þýtt fyrir þá sem greiða og þá sem njóta þjónustunnar. Við þekkjum úttektina sem var gerð á Sóltúni á sínum tíma og hvernig kom í ljós að skattborgarar borga meira þar en fyrir aðrar öldrunarstofnanir. Við þekkjum líka hvaða afleiðingar þetta hefur haft fyrir starfsfólk, ekki satt? Það er ekki sama hvað það er, það er ekki sama hvar það stendur í „hírarkíinu“. Við sáum t.d. hvað gerðist í vetur þegar læknaritarastörfin voru boðin út. (Forseti hringir.) Til hvers? Til að spara á kostnað starfsfólksins, láglaunafólksins. Læknar (Forseti hringir.) með vel á aðra milljón á mánuði skipulögðu þetta á kostnað þessa fólks.