136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:05]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði getað haldið þessa ræðu hv. þingmanns. Það er nákvæmlega þetta sem þingsályktunartillagan gengur út á, að ríkisstofnanir haldi sig við sína kjarnastarfsemi en láti öðrum eftir að sinna öðrum verkefnum, þar á meðal tölvustarfsemi og fleiri verkefnum sem ég nefni í þingsályktunartillögunni, þannig að aðrir aðilar geti blómstrað á þeim vettvangi. Algjörlega sammála, Íslandspóstur á að sinna póstdreifingu en láta allt hitt vera.

Ég get notað sömu rök um ýmsar aðrar ríkisstofnanir, þau eiga að láta annað vera. Það er sem sagt af engri mannvonsku eins og hv. þingmaður sagði — kannski notaði hann ekki nákvæmlega það orð en það var andinn í orðum hans bæði núna og síðast þegar þessi tillaga var til umræðu — að ég væri að ýja að því að mannvonska lægi að baki hjá forstöðumönnum stofnana að víkka þetta út. Alls ekki. Örugglega ákveðinn metnaður um að veita mikla og fína þjónustu á mörgum sviðum en það sem ég á við er: Ríkisstofnanir eiga að sjá um kjarnastarfsemina sem lögin kveða á um. Aðra starfsemi eiga aðrir að sjá um, m.a. einkaaðilar, og þeim verkefnum innan stofnana sem snerta ekki kjarnastarfsemi eiga þær að geta útvistað til einkaaðila. Þannig blómstrar atvinnulífið.

Með þessu litla dæmi er hv. þingmaður búinn að sýna nákvæmlega fram á réttmæti þessarar tillögu .