136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um þingið sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir opnaði á áðan. Allur kraftur stjórnvalda undanfarnar vikur hefur farið í að bregðast við þeim aðstæðum sem hér hafa skapast sem er í sjálfu sér ekkert skrýtið. Aðalþunginn á vettvangi ríkisstjórnarinnar hefur verið á stofnanir ríkisins en með neyðarlögunum svokölluðu voru m.a. Fjármálaeftirlitinu falin mikil völd til að sýsla með eignir bankanna og koma nýjum bönkum á fæturna.

Meðan á þessu öllu hefur gengið má segja að þingið hafi verið nokkuð á hliðarlínunni. Mín skoðun er sú að æskilegt sé að aðkoma þingsins sé sem mest. Fram undan er erfitt uppbyggingarstarf, við þurfum að vera klár í það hvert skuli stefna og hvernig við ætlum að fara þangað. Við þurfum að hafa pólitíska sýn og hugsun og það skiptir máli, ekki síst á þessari stundu, hver sú hugsun er. Hvernig ætlum við að fara að því að rétta af fjárhag ríkisins? Hvar ætlum við að spara í ríkisrekstrinum? Hvernig ætlum við að hjálpa heimilunum í landinu? Ætlum við að sitja uppi með ríkisbanka, ríkisfyrirtæki, einokunarfjölmiðla og þar fram eftir götunum? Við því segi ég nei. Mér finnst gott að þessi umræða skuli hafa farið fram í þessum sal í dag og fínt að menn skuli hafa skipst á skoðunum um það hvert verkefni þingsins er núna við þessar aðstæður. Ég held að það skipti máli fyrir þingmenn að taka þátt í umræðum á þinginu eins og kostur er jafnvel þótt um sé að ræða fyrirspurnir af ýmsum toga. Fyrir fólkið í landinu skiptir verulegu máli að þingmenn séu aktífir í störfum sínum og ávallt vakandi fyrir því sem hér er að gerast. Sú umræða sem snúast mun um framtíð íslensku þjóðarinnar og þau stefnumið sem þar verða í hávegum á að fara fram í þessum sal. Til þess erum við kjörin og undan því skulum við ekki víkjast.