136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mengunarmælingar við Þingvallavatn.

78. mál
[14:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með þau. Ég vil lýsa miklum vonbrigðum með það að ráðherra telur að úrskurður ráðuneytisins sé uppfylltur enda þótt verið sé að mæla niturmagn í úrkomu en ekki í andrúmslofti. Í skýrslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem vitnað er til í samskiptum Vegagerðar og Umhverfisstofnunar, kemur skýrt fram að mælingar í úrkomu segja lítið sem ekkert um áhrif bílaumferðar á losun köfnunarefnis á svæðinu og kemur þar margt til, m.a. það að umferð bíla í úrkomu, mikilli rigningu í kringum Þingvallavatn er minni en á þurrviðrisdögum og mengunin berst með öðrum hætti.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum sérstaklega með þetta og skora á ráðherra að kynna sér þær mælingar sem Reykjavíkurborg hefur stundað allt frá árinu 1995 á niturmagni í lofti samkvæmt Evrópustaðli. Tæki og aðgerðir til að framkvæma slíkt mat eru fyrir hendi og þekkingin líka. Mér er því alveg óskiljanlegt að menn skuli fara að finna upp hjólið með þeim hætti sem hér er lýst, því það mun ekki gefa neinar upplýsingar.

Mig langar til þess að vitna til þess hér sem ég nefndi áðan að nýjar rannsóknir á tærleika Þingvallavatns benda því miður til þess að hann sé að minnka. Náttúrufræðistofa Kópavogs gerði rannsókn á þessu á árinu 2007 og samanburður við fyrri mælingar, frá árunum 1974–1982, sýnir að gegnsæi vatnsins hefur minnkað úr 10–12 metrum að meðaltali niður í aðeins 6 metra í október 2007. Þetta eru vísbendingar um breytingar á aðeins 25–30 árum og eru skýr viðvörunarmerki sem taka ber mjög alvarlega að mínu (Forseti hringir.) viti.