136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

meðafli við síldveiðar.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit kannski manna best sem gamall skipstjórnarmaður þá verður auðvitað til meðafli við síldveiðar eins og margar aðrar veiðar og gert er ráð fyrir því í fiskveiðistjórnarlögunum að slíkur meðafli skuli koma fram við vigtun og þar af leiðandi dreginn frá kvóta. Ég hef ekki á hraðbergi þær tölur sem liggja því til grundvallar hversu mikill þessi meðafli var. Hins vegar er auðvelt að afla þessara upplýsinga og ég skal hafa milligöngu um það fyrir hv. þingmann, hvort sem hann vill bera það fram sem formlega fyrirspurn þannig að mér gefist tóm til að afla þeirra upplýsinga eða hann vill afla upplýsinganna með öðrum hætti. Eftirlit með þessum málum hefur verið hert mjög umtalsvert og eftirlit með veiðunum þar af leiðandi aukið til að koma í veg fyrir að þarna gerist nokkuð misjafnt. Um þetta gilda sem sagt þær almennu reglur að meðafla sem kemur við þessar veiðar ber að vigta og hann á auðvitað að koma fram og verður þá dreginn frá kvóta eins og lög og reglur gera ráð fyrir.