136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að stofna til þessarar umræðu í dag, það hefur margt áhugavert komið fram. Það sem stendur kannski upp úr er óvissan sem ríkir nú á tímum, við vitum ekki hvar við stöndum, við höfum ekki enn náð að klára málið gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þótt við vonumst til þess að það klárist strax eftir helgi. Við vitum ekki úr hverju við höfum að spila á næsta ári, við vitum ekki hver sameiginlegur fjárhagur þjóðarinnar er og meðan svo er er fjarskalega erfitt að ákveða til hvaða aðgerða á að grípa til lengri tíma. Þetta er ekki gott svar en þetta er heiðarlegt svar og því miður er ekki til neitt betra svar á þessari stundu.

Það er þrennt sem stendur að mínu mati upp úr umræðunni í dag. Í fyrsta lagi þessi gríðarlegi vandi sem blasir við á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi, verðbólga og gríðarháir vextir eru að sliga atvinnulífið. Það hefur bein áhrif á afkomu heimilanna í landinu þar sem kaupmáttur þeirra, vaxandi skuldasöfnun og gríðarleg bílalán valda mikilli reiði og hræðslu meðal fólks í landinu. Það er sú reiði og sú hræðsla sem ég vil gera að umtalsefni í dag.

Þó að ríkisstjórnin hafi undanfarnar vikur unnið að því að kynna til sögunnar aðgerðir til þess að hjálpa þjóðinni við núverandi aðstæður — ég vil sérstaklega nefna fyrirætlan ríkisstjórnarinnar um að gera fólki kleift að grípa til nauðasamninga á grundvelli gjaldþrotaskiptalaganna, eða hvernig svo sem menn útfæra það — hjó ég líka eftir því hjá hæstv. forsætisráðherra, sem áður hefur komið fram hjá ríkisstjórninni, að ef menn eru komnir algjörlega í þrot sé ekki kippt undan möguleikum fólks á að búa í húsnæði sínu. Ég held að þetta sé kannski mesti óttinn sem nú er í þjóðfélaginu að fólk er hreinlega svo hrætt um sitt nánasta umhverfi, það er hrætt um börnin sín, það er hrætt um heimilið, fólk er hreinlega farið að kvíða fyrir jólunum. Þetta er ástand sem við stjórnmálamenn verðum að horfast í augu við. Þetta er það versta sem getur gerst þegar hræðslan er svo mikil í þjóðfélaginu og hún beinist mjög að fólki í þessum sal, hún beinist að okkur öllum hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Nú er ekki gerður greinarmunur á því hvar menn standa í flokkum, nú eru allir stjórnmálamenn undir, nú eru allar stofnanir ríkisins undir, ríkisstjórnin, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið. Það er allt undir, yfirvöld eru undir. Fólkið fer út á göturnar, þar er hættan sem blasir við. Við þetta fólk þurfum við að tala heiðarlega. Við þurfum að segja fólkinu eins og satt er: Okkar vandi er gríðarlegur, menn eru að reyna að grípa til þeirra aðgerða sem tækar eru en við vitum ekki enn þá nákvæmlega hvernig okkar staða mun verða á morgun og hinn daginn og hinn daginn.

Háttalag Breta gagnvart okkur hefur ekki verið til fyrirmyndar. Þau ósköp sem nú dynja yfir í milliríkjadeilum okkar við Breta eru þessleg að við hefðum aldrei trúað því að við ættum eftir að lenda í slíkum vanda við okkar vinaþjóð, að við töldum. Það er þessi óskaplega reiði sem nú beinist gagnvart Bretum sem er áberandi. Fólk er fokreitt yfir því að þeir meðhöndla okkur eins og stórglæpamenn og spyr eðlilega hvort við hefðum getað varið okkur betur. Þetta háttalag er ekki til að efla trú þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið. Drottinn minn, ef þetta eru viðtökurnar hjá herraþjóðunum við vanda smárrar vinaþjóðar segi ég bara eins og Laxness sagði forðum: Hvað get ég gert fleira fyrir yður?

Íslendingar standa einir. Við munum þurfa að komast upp úr þessum vanda sjálf. Við munum beita öllum þeim ráðum sem við getum til þess að gera það en aðalatriðið er að við tölum heiðarlega (Forseti hringir.) við fólkið í þessu landi.