136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:50]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður þetta frumvarp, þó með þeim fyrirvara að það bar mjög brátt að og lítið tóm hefur gefist til að skoða það í grunninn efnislega. Það verður væntanlega gert í nefnd. Ég vil þó strax segja að í 1. gr. er ákvæði sem ég tel óþarft þar sem vísað er til að þrotabúi sé heimilt að reka áfram fjármálastarfsemi með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Ég tel þetta óþarft ákvæði. Það eru lög um Fjármálaeftirlitið og ef þrotabú heldur áfram rekstrinum þá gilda núgildandi lög um Fjármálaeftirlitið og ekki þarf að setja frekari varnagla við það. Það þarf auðvitað að reka það í samræmi við þau lög. Ég held að það að koma Fjármálaeftirlitinu tvöföldu inn í eftirlitið í gildandi lögum og svo með sérákvæði hér sé óþarft og tefjandi fyrir þrotabúið. Mér sýnist nefnilega að Fjármálaeftirlitið hafi ekki verið sérstaklega virkt í störfum á undanförnum árum og eftirlitslítið. (ÁI: „Under statement“.) Ekki meira um það efnislega.

Þó er eitt sem ég vil gera áskilnað um, hæstv. viðskiptaráðherra, það vantar inn í þetta frumvarp ákvæði, það vantar reyndar inn í frumvarp um fjármálafyrirtæki, nýju ríkisbankana, ákvæði um launakjör og við áskiljum okkur rétt að setja inn ákvæði um að kjör æðstu starfsmanna bankanna, bankastjóra og æðstu starfsmanna, fari að kjarasamningum opinberra starfsmanna eða kjörum alþingismanna. Ef menn vilja vera ríflegir er hugsanlegt að borga bankastjórunum kjör ráðherra.

Það er auðvitað alger ósvinna sem hefur gerst við stofnun bankanna að bankastjórarnir skammta sér launakjör upp á 1.900 þúsund. Þetta er eins og blaut tuska í andlitið á almenningi í landinu og svo lækkaði viðkomandi sig hjá einum bankanna um 200 þús. og þóttist góður, í 1.700 þús. kr. á mánuði. Hvers konar bruðl og ósköp eru þetta? Og hjá hinum bönkunum eru launakjörin ekki gagnsæ. Ógagnsæið, launaleyndin er eins og hæstv. viðskiptaráðherra veit og tekur eflaust undir með mér, gróðrarstía misréttis í launum. Auðvitað verðum við að setja undir þennan leka og við áskiljum okkur þann rétt að bæta við frumvarpið nýrri grein sem kveður á um launakjör bankastjóra og æðstu starfsmanna hinna nýju ríkisbanka.