136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

upplýsingagjöf um aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Mér heyrðist þingmaðurinn drepa á þrennt. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að það eru engin áform um að flýta kosningum að svo stöddu. Í öðru lagi að því er varðar rannsókn mála, rannsókn á því sem miður kann að hafa farið við aðdraganda þessa máls, þá hafa formenn flokkanna unnið að því upp á síðkastið og munu funda síðar í dag þar sem leitað verður leiða til að hægt verði að flytja sameiginlegt þingmál um það efni og vona ég að það geti orðið sem allra fyrst að hægt verði að setja lög og koma þeim málum öllum í viðunandi farveg. Það hefur staðið til allan tímann og verður ekki unað við annað en að slíkt verði gert og helst af öllu hefði ég viljað að það væri á ábyrgð allra stjórnmálaflokkanna og hef ekki fundið annað en formenn flokka séu inni á því.

Í þriðja lagi að því er varðar upplýsingagjöf til almennings, þá þykir mér miður ef það er almenn tilfinning að þar sé pottur brotinn. Við munum gera hvað við getum til að bæta þar úr. Opnað hefur verið sérstakt símaver sem veitir upplýsingar. Öll ráðuneytin veita upplýsingar og eru auðvitað reiðubúin að liðsinna hverjum og einum eftir mætti. Ýmsar stofnanir ríkisins eins og Íbúðalánasjóður og Vinnumálastofnun og fleiri slíkar stofnanir vinna hörðum höndum að því að greiða úr málefnum einstaklinga og einstaka málum. Við munum reyna að bæta þessa þjónustu eins og hægt er og því hefur verið beint til viðskiptabankanna þriggja að þeir, hver á sínum vettvangi, reyni að leiðbeina fólki og liðsinna eftir því sem mögulegt er. Við munum að sjálfsögðu reyna að bæta þá þjónustu sem hið opinbera veitir í þessum efnum. Allar góðar hugmyndir í því efni eru vel þegnar og mun verða unnið úr þeim eftir fremstu getu.