136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

samvinna í efnahagsmálum.

[15:23]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Haustið er svo ógnarlangt, myrkrið er svo svart um þessar mundir. Þjóðin þarf á því að halda að menn beini kastljósinu í eina átt. Hér eru alls konar hálærðir sérfræðingar sem halda að strax á morgun getum við tekið upp norska krónu, evru eða dollara og svo slæst þjóðin um þessi atriði. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra út í það: Telur hann að það sé lausn sem við eigum möguleika á þegar við stöndum í stórstríði við Bretland og Holland, þess vegna sterka aðila innan Evrópusambandsins, sem er kannski stríð upp á líf og dauða um efnahag Íslands?

Ég spyr einnig: Af hverju er ekki talað við hagfræðiprófessorana Gylfa Zoëga í Háskóla Íslands og Jón Daníelsson í London sem eru sérfræðingar miklir í að fást við kreppu? Þeir fullyrða að margt sem gert hafi verið hér sé skólabókardæmi um hvernig eigi ekki að fara að. (Forseti hringir.) Ég vil leita víðtæks samstarfs og forsætisráðherra ber að leita þess við marga aðila, við háskólann, atvinnulífið og stjórnarandstöðuna. (Forseti hringir.) Ég hygg að það skili sér fljótt í betri árangri og meiri samstöðu með þjóðinni.