136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:47]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að hagræða fyrir ákveðinn hluta fólks í sjávarútvegi, þ.e. sægreifana og útgerðarmennina sem fengu kvótann gefins og hafa haft þá sérstöðu að geta leigt, selt og veðsett hann. Þetta þýðir að sjómenn á kvótalitlum bátum þurfa að taka og fá lægra fiskverð en ella. Útgerðirnar gera út báta með litlar veiðiheimildir og geta þurft, jafnvel þótt þær eigi miklar veiðiheimildir, að leigja ákveðnar tegundir til sín. Þá þurfa þær útgerðir að borga hærra verð en ella fyrir veiðiheimildir og það er ekkert mikið þó að útgerðir þurfi að leigja á tiltölulega lægra verði frá sér ef þær geta ekki klárað að veiða kvótann á einhverjum tímapunkti.

Ef menn sjá fram á að kvóti brenni inni losa þeir sig við hann, sérstaklega í þorski. Það arðbærasta sem útgerðarmaður hefur getað gert í gegnum tíðina er að leigja veiðiheimildir sínar til leiguliða. Upp á síðkastið hefur verið 250 kr. leiguverð á þorski en hægt að selja hann á 300–350 kr. eftir því hversu stór og góður hann er.

Auðvitað er sorglegt að þegar þjóðfélagið er allt að fara á hausinn og til helvítis stöndum við frammi fyrir því að sjálfstæðismenn, með Samfylkinguna í bandi eins og hund á eftir sér, séu tilbúnir til að taka þátt í því að skapa meira ósætti í samfélaginu heldur en þyrfti að vera. Ég segi enn og aftur: Þetta frumvarp á að draga til baka og ekki sýna fólki slíka óvirðingu. (Forseti hringir.) Það er fólk í sjávarútvegi sem þarf á vinnu að halda.