136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:55]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér kom ekki á óvart að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir styddi frumvarpið. Foringi og formaður Framsóknarflokksins var nú guðfaðir þessa bölvaða kvótakerfis og framsóknarmenn hafa hingað til stutt það. Reyndar þó með þeirri undantekningu að þegar niðurstöður frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna birtust, töldu þeir að breytingar þyrfti að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu til að mannréttindi yrðu ekki brotin.

Að atvinnuvegurinn þurfi sams konar fyrirgreiðslu og aðrir atvinnuvegir og búi við óstöðugleika. Fáum útvöldum hefur verið afhentur fiskurinn í sjónum. Hingað til hafa þeir getað leigt hann, selt og veðsett, eins og komið hefur fram, eftir að frjálsa framsalið var sett á 1991. Þetta er mesti ríkisstyrkur sem ein atvinnugrein hefur fengið, sennilega í heimssögunni. Að fá fiskinn ókeypis. Þeir geta leigt hann og braskað með hann á alla kanta. Nú er þeim hjálpað að búa til meiri og hærri leigutekjur af veiðiheimildunum með því að leyfa að færa svona mikið magn af fiski á milli ára. Þetta er það sorglega við framsóknarkerfið — fiskveiðistjórnarkerfið sem Framsóknarflokkurinn átti stærstan hlut í að búa til á sínum tíma. Því reiknar maður ekki með öðru en að þeir haldi áfram (Forseti hringir.) villir síns vegar. En við skulum vona að bjartari tímar komi hjá Framsóknarflokknum.