136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mætti svo sem segja margt um ræðu hv. þingmanns en ég ætla aðeins að vekja athygli á einu sem hv. þingmaður gerði hér að umræðuefni og er auðvitað alveg út í hött. Hv. þingmaður sagði að frumvarpið væri í rauninni í andstöðu við þann vísindalega tilgang sem við höfum lagt áherslu á þegar við höfum reynt að byggja upp fiskstofna.

Frumvarpið gefur þann möguleika, ef háttar til eins og það gerir ráð fyrir, að það hentar ekki eða ekki er mögulegt fyrir einstakar útgerðir að ná öllum aflanum, geti menn geymt þann afla fram yfir fiskveiðiáramót. Ef það er eins og hv. þingmaður vísar til, að forsendan fyrir fiskveiðiráðgjöfinni og fiskveiðiuppbyggingarstefnunni sé sú að geyma aflann í sjónum og veiða hann ekki strax leiði það til þess að stofnarnir stækki, er frumvarpið algjörlega í samræmi við það.

Ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að það væri ein ástæðan fyrir því að þeir þingmenn Frjálslyndra sem hér hafa talað væru svo mikið á móti því. Þeir hafa alltaf verið á móti þessari hugsun. Það var ekki rétt hjá hv. þingmanni að þingmenn Frjálslynda flokksins hefðu lagt til að auka þorskaflann vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu núna. Þeir hafa einfaldlega sagt það — og það er ekkert nýtt — að Hafrannsóknastofnun hafi mælt rangt. Það sé meiri þorskur í sjónum og betur hafi tekist til við uppbyggingu þorskstofnsins en vísindamenn og ýmsir aðrir hafa sagt. Þeir hafa með öðrum orðum verið þeirrar skoðunar að fiskveiðikerfið hafi leitt til þess að meiri þorskur sé í sjónum en vísindamenn vilja vera láta og þess vegna sé óhætt að veiða meira. Þess vegna stangast það allt saman á hjá hv. þingmanni þegar kemur að samspili frumvarpsins og fiskveiðiráðgjafarinnar og -stefnunnar að þessu leyti. Það er nauðsynlegt að vinda ofan af þessari algjöru rökleysu hjá hv. þingmanni áður en umræðan heldur áfram.