136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta mál er í mínum huga mjög einfalt. Það er algerlega fráleitt við núverandi aðstæður að fá Breta hingað til að leika sér með herþotur sínar yfir jólamánuðinn á okkar kostnað. Ætlum við hvort tveggja í senn að vera á hnjánum í samskiptum við þá og borga svo stórfé fyrir algerlega tilgangslausa sýndarmennsku sem auðvitað er fólgin í því að láta herþotur leika sér suður á Keflavíkurflugvelli eða í háloftunum í jólamánuðinum? Veit einhver til þess að það standi til að ráðast á Ísland í desember? (Gripið fram í.) Ég veit ekki til þess. Hvar er sjálfsvirðing okkar og hver er metnaður okkar orðinn ef við ætlum að láta þetta ganga yfir okkur?

Var það ekki hæstv. iðnaðarráðherra sem síðast í gærkvöldi sagði í sjónvarpsfréttum að Bretar væru að gera — hvað? Beita okkur ofbeldi. Eiga þá mennirnir sem settu á okkur hryðjuverkalög, og eru samkvæmt yfirlýsingum ráðherra í okkar eigin ríkisstjórn að beita okkur ofbeldi, að koma og passa upp á okkur á okkar kostnað? Þetta nær ekki nokkurri átt. Það á að sjálfsögðu að senda Bretum þau skilaboð að þeir hafi ekkert hingað að gera, þeir skuli frekar reyna að leysa sín deilumál við okkur eins og siðaðir menn á lögmætum forsendum.

Hverjir eru erfiðustu andstæðingar okkar Íslendinga um þessar mundir? Það eru ESB-þjóðirnar, það eru NATO-þjóðir. Það er veruleikinn sem menn ættu að horfast í augu við. Það eru þá klúbbarnir sem menn vilja endilega líma sig við, er það ekki? Ég lagði til í utanríkismálanefnd strax fyrir nokkrum vikum síðan að utanríkismálanefnd kæmi þeirri skoðun sinni á framfæri við ríkisstjórnina að við ættum að afþakka þetta eftirlit. Því miður var ekki fallist á það eða það ekki gert. Ég þakka þó formanni utanríkismálanefndar fyrir að segja það sem hann sagði hér og hvet hann til þess í sinni seinni ræðu að taka af skarið einu sinni og segja það sem sína skoðun að við eigum að afþakka þetta.