136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp vegna umræðu um aukningu þorskveiðiheimilda rétt áðan. Ég held að rétt sé að árétta að taki sjávarútvegsráðherra þá ákvörðun að auka þorskveiðiheimildir mun það að sjálfsögðu ganga til þeirra sem tóku á sig niðurskurðinn þegar draga þurfti saman í þorskveiðum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að árétta að það eru þau skilaboð sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur gefið og sem hann gaf þegar sú ákvörðun var tekin. Þeir sem höfðu þorskveiðiheimildirnar með höndum og fengu á sig niðurskurð munu að sjálfsögðu njóta þess þegar hægt verður að auka þorskveiðiheimildirnar á nýjan leik.

Það eru skilaboð sem nauðsynlegt er að komi fram í umræðunni.