136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[14:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar finnst mér rétt að undirstrika ákveðna þætti. Hann byggir málflutning sinn á því að það frumvarp sem hér er til umræðu og þær breytingar sem þar eru lagðar til séu gerðar af einhverri sérstakri gæsku eða góðsemi í garð erlendra kröfuhafa, að það sé rótin að þessu. Svo er auðvitað ekki.

Eins og svo margt annað í því ferli sem við fáumst við þessa dagana er undirrótin að því að þetta frumvarp er flutt sú að verið er að gæta íslenskra hagsmuna. Það er hagsmunamál Íslendinga, íslenska ríkisins og íslensks almennings að sem mest fáist fyrir þær eignir sem íslenskir bankar hafa átt erlendis. Frumvarpið er einfaldlega liður í ráðstöfunum til þess að tryggja að svigrúm gefist til þess að fá sem mest fyrir þær eignir sem eru úti um allan heim á vegum íslensku bankanna. Þetta er auðvitað bara partur af þeim ráðstöfunum. Þetta er rótin að því að farið er út í þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til en ekki einhver góðvild eða umhyggja fyrir erlendum kröfuhöfum eins og mátti ráða af mörgu í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar.

Ég held að við verðum að hafa þetta í huga. Hagsmunir okkar sem heildar eru að sem mest fáist fyrir eignirnar í þessum búum, búum gömlu bankanna. Margvíslegir hagsmunir sem tengjast því en það er grundvallaratriðið og það sem við verðum að hafa í huga þegar við afgreiðum þetta mál.

Þetta er vissulega óvenjulegt mál og ég held að enginn okkar, frekar en þegar við settum neyðarlögin, hefði kosið að vera í þeim sporum að þurfa að afgreiða þessar breytingar. Hins vegar koma (Forseti hringir.) þessar breytingar til vegna einstaklega óheppilegra og óvenjulegra aðstæðna (Forseti hringir.) sem kalla á óvenjulegar aðgerðir á móti.