136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:08]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég styð að málið sé lagt fyrir réttarfarsnefnd og að kallað sé eftir áliti hennar. Að sjálfsögðu eigum við að vanda til allrar lagagerðar. Jafnvel þótt liggi á má Alþingi aldrei falla í þá gryfju að afgreiða lög án þess að fyrir liggi að þau hafi fengið eðlilega þinglega meðferð þannig að ég get alveg tekið undir það sjónarmið.

Hvað erum við að tala um? Erum við að tala um að Fjármálaeftirlitinu séu falin einhver sérstök völd með frumvarpinu? Já, að því leyti að það á að hafa ákveðið eftirlit. En hvaða handverk er hér um að ræða? Það er heimild til þess að leitað sé eftir að fjármálafyrirtæki geti starfað áfram. Síðan er ráðinn lögmaður eða löggiltur endurskoðandi af fjármálafyrirtæki til að aðstoða við að koma nýrri skipan á fjármál og hann á að sjá um að hægt sé að koma starfsemi fyrirtækisins í eðlilegt horf. Fjármálaeftirlitið kemur ekki að því nema sem eftirlitsaðili, eins og ég skil það lagafrumvarp sem hér liggur fyrir. Þarna er beitt vissum afbrigðum frá gjaldþrotaskiptalögunum til að heimila hraðvirkari og einfaldari meðferð til að ganga fyrr fram og kanna vilja kröfuhafa. Ég get ekki séð að beita þurfi sérstakri innköllun.

Þarna er um miklu hraðvirkari meðferð að ræða og að mörgu leyti gagnsærri en gengur og gerist, alla vegana á upphafsstigi skipta samkvæmt gjaldþrotaskiptalögunum. Ég fæ ekki því skilið þessa ofurástúð vinstri grænna á gjaldþrotaskiptalögunum. (Forseti hringir.)