136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

kostnaður við varalið lögreglu.

[10:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég átta mig ekki almennilega á spurningunni, hún er mjög óljóst orðuð en ég gef mér að hv. þingmaður sé hér að spyrja um fjölgun héraðslögreglumanna og breytingu á reglugerð um héraðslögreglumenn sem hefur verið í gildi í 60 ár eða svo. Það sem gert hefur verið í því efni er að ákveðið var að taka mið af nýskipan lögreglumála. Umdæmum lögreglunnar var fækkað úr 26 í 15. Áður voru heimildir fyrir hvert lögregluumdæmi að hafa allt að átta héraðslögreglumenn starfandi fyrir sig, samtals 208 lögreglumenn. Með þeirri breytingu sem ákveðin er núna er því breytt þannig að í Reykjavík megi menn hafa til taks allt að 80 héraðslögreglumenn, 40 á Suðurnesjum og síðan 16 í nokkrum umdæmum eins og gerð var grein fyrir í reglugerðinni frá 17. október. Eftir að sú reglugerð var gefin út hefur komið í ljós að t.d. á Austfjörðum, á Eskifirði og Hornafirði er hámarkstalan átta, sem áfram gilti varðandi það svæði, of lág. Þess vegna höfum við í huga að breyta reglugerðinni aftur og hafa 16 manna svæðin fleiri en við gerðum ráð fyrir í reglugerðinni 17. október. Þá fjölgaði þeim mönnum sem verða til taks kannski upp í 280.

Kostnaður við fjölgunina í fyrri reglugerðinni mundi verða 45 millj. kr. á ári ef allar heimildirnar yrðu nýttar sem ég tel ekki líklegt. Um er að ræða heimildir en ekki ákvörðun um að fjölga héraðslögreglumönnum, verið að útfæra gömlu reglurnar um þá með breytingu á reglugerð.