136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

lífsýnasöfn.

123. mál
[12:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir innlegg þeirra í umræðuna og ég held að öllum sé ljóst sem hlusta á umræðuna að um er að ræða mjög tæknilegt mál. En markmiðin eru skýr með þeirri vinnu sem fram undan er. Í fyrsta lagi reynum við að ganga þannig fram að lífsýnasöfnin nýtist í þjónustu við sjúklinginn. Í öðru lagi að þau nýtist í þágu heilbrigðisvísinda án þess þó að skerða þau persónuverndarsjónarmið sem ég held almenn sátt sé um innan þingsins og hjá almenningi og við viljum viðhalda. Ég held þess vegna að mikilvægt sé að nefndin fari vel yfir þau atriði sem hér koma fram og eru mjög tæknileg. Ég treysti hv. heilbrigðisnefnd til að gera það vel því að okkur er öllum ljóst að hér er mál sem ekki þarf að vera pólitísk deila um heldur er það þvert á móti eitt af þeim úrlausnarefnum sem við höfum og er afskaplega mikilvægt sem slíkt. Lögð hefur verið mikil vinna í frumvarpið og ég veit að sú vinna sem fer fram í heilbrigðisnefndinni mun aðeins bæta það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég vil að endingu þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra innlegg í umræðuna.