136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[14:36]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum varðandi skilmálabreytingar á lánum og skuldbreytingar. Nokkuð hefur verið um það undanfarna tvo til þrjá áratugi, og á sumum árum meira en öðrum, að fyrirkomulagið hefur verið á þann veg að greitt hefur verið stimpilgjald af slíkum breytingum. Er þá verið að leggja til núna að fallið verði frá þeirri framkvæmd sem verið hefur? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. ráðherra. Ef það er rétt skilið, sem mér heyrðist á framsöguræðunni, að um sé að ræða þá breytingu að aflétta sköttum, stimpilgjaldi sem innheimt hefði verið hingað til, væri fróðlegt að vita hver ástæðan er fyrir því að ráðherrann grípur til þeirra ráða núna. Er umfang vandans það mikið að ástæða er talin til að fella þessi gjöld niður af einstaklingum sem á undanförnum árum hafa mátt bera þessar byrðar án nokkurrar sýnilegrar samúðar úr fjármálaráðuneytinu? Það væri fróðlegt að fá skýringar á því hvers vegna, ef við getum orðað það þannig, ekki er búið að breyta þessu fyrr. Þeir sem á undanförnum árum hafa gengið í gegnum skilmálabreytingar og skuldbreytingar hafa ekki notið þeirra kjara sem verið er að bjóða upp á með frumvarpinu.