136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-ábyrgðir.

[15:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Mér finnst gæta ákveðins misskilnings í þessari umræðu. Hann er sá að samið hafi verið um allar fjárhagsskuldbindingar í þeim gjörningi sem hér liggur fyrir. Það sem við erum að samþykkja er að fara samkomulagsleiðina. Við ætlum að finna pólitíska lausn á þessu máli. Við skuldbindum okkur til þess og að fara samningaleiðina í málinu. Við erum að koma okkur saman um viðmið sem við ætlum að nota í þeim samningum sem fram undan eru.

Samningarnir sjálfir eru þó eftir og þegar þeir liggja fyrir og er lokið samkvæmt 2. málslið í þessum umsömdu viðmiðunum koma þeir að sjálfsögðu til kasta þingsins. Þá liggur fyrir hver væntanleg fjárhagsskuldbinding okkar er og með hvaða hætti við ætlum að fjármagna hana, hvaða kjör liggja til grundvallar, hvaða endurskoðunarákvæði eru í þessu o.s.frv. Þá kemur málið til kasta þingsins.

Þetta mál hefur verið til umfjöllunar bæði í Brussel og Washington allt fram til dagsins í gær vegna þess að spurningin var ekki bara um að menn næðu niðurstöðu í Brussel um að fara samningaleiðina heldur hafði það líka áhrif á stöðu mála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vildu menn vera alveg vissir, allt fram á laugardagskvöld, að niðurstaða væri fengin í málið þannig að við gætum leitt þetta heildstætt. Niðurstaða í þessu fékkst ekki fyrr en á laugardagskvöld varðandi bæði Brussel og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, svo það liggi fyrir.

Það sem ég kynnti fyrir utanríkismálanefnd á föstudagsmorguninn og sagði utanríkismálanefnd að breyting á orðalagi gæti orðið — það orðalag breyttist.